140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

samningar um sölu Byrs.

[16:24]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég vænti svars við því hvers vegna búið er að breyta starfsáætlun með þeim hætti að flýta afgreiðslu 3. umr. fjárlaga um hálfan mánuð. Mér finnst óskiljanlegt að ekki hafi komið fram skýringar á því hvers vegna þurfti að flýta þessu eins og hér hefur verið gert. Það er algjör nýlunda á þessu þingi sem við höfum verið hér á að hlutunum sé flýtt, það er nú yfirleitt þannig að allt tefst úr hófi þannig að einhverjar málefnalegar skýringar hljóta að vera á því að búið sé að flýta 3. umr. fjárlaga um hálfan mánuð. Nú bætist það við að komnar eru fram mikilvægar upplýsingar um hluti sem okkur þingmönnum er ætlað að greiða atkvæði um, ætlað að taka ákvarðanir um, fyrir skattborgara þessa lands. Það er fullkomlega ábyrgðarlaust af okkur að gera það án þess að kynna okkur þær upplýsingar. Ég hafna því að taka þátt í slíkum vinnubrögðum. Ég fer fram á að virðulegur forseti útskýri það fyrir mér hvers vegna búið er að breyta starfsáætlun. Af hverju er ekki hægt að halda sig við hana og gefa þingmönnum færi á því að kynna sér málið?