140. löggjafarþing — 24. fundur,  16. nóv. 2011.

lengd þingfundar.

[16:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er ekki tímabært að halda þessa atkvæðagreiðslu. Þingmenn hafa ekki fengið tækifæri til að kynna sér þann samning sem hér um ræðir. Þeir þingmenn sem hafa séð pappíra merkta þeim samningi vita núna að blaðsíður vantar í hann. Það er ekki allt sem á að vera í þessum skjölum. Þess vegna vil ég segja, frú forseti, að þingmenn Framsóknarflokksins sem hér eru eru sammála um það og samstiga stjórnarandstöðunni að ekki er hægt að taka þátt í þessu rugli lengur.

Ríkisstjórnin verður að axla ábyrgð á því rugli sem hér er í gangi. Hún verður núna að sýna að það er ríkisstjórn í landinu en ekki alltaf að vera að varpa ábyrgðinni á þingið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það er ríkisstjórn, það er framkvæmdarvaldið sem ber ábyrgð hérna. Ég held að þingmenn stjórnarandstöðunnar ættu nú að sýna það hverjir það eru sem bera ábyrgð á þessu, hverjir það eru sem eru tilbúnir að fara með fjáraukalög í gegnum þingið, samning eða gögn sem menn hafa ekki fengið tækifæri til að kynna sér. Og þeir sem hafa fengið að kynna sér hafa ekki séð allt sem þarf (Forseti hringir.) að sjá.

Frú forseti. Þetta er ekki boðlegt.