140. löggjafarþing — 25. fundur,  17. nóv. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[10:06]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við atkvæðagreiðslu um fjáraukalögin fyrr í vikunni þegar greidd voru atkvæði um einstaka liði sat ég hjá í atkvæðagreiðslu vegna Vaðlaheiðarganga. Ég gerði ekki grein fyrir atkvæði mínu í það skipti en ég skýri það hér með vegna þess hvernig ég greiði atkvæði í dag.

Fram hafa komið efasemdir um kostnaðarútreikninga vegna Vaðlaheiðarganga og meðan það mál hefur ekki verið til lykta leitt og meðan Ríkisendurskoðun hefur ekki haft ráðrúm til að fara yfir þá kostnaðarútreikninga eins og hv. umhverfis- og samgöngunefnd hefur óskað eftir treysti ég mér ekki fyrr í vikunni til að greiða atkvæði með fjárveitingu vegna Vaðlaheiðarganga og sat hjá. Að fengnum fyrirvara fjárlaganefndar og yfirlýsingu hæstv. fjármálaráðherra í upphafi þessarar atkvæðagreiðslu sé ég þó ekki ástæðu til að greiða atkvæði gegn (Forseti hringir.) fjáraukalögunum í heild sinni og mun því samþykkja þau með þeim fyrirvara sem ég hef nú gert grein fyrir.