140. löggjafarþing — 25. fundur,  17. nóv. 2011.

vegaframkvæmdir á Suðvesturlandi.

[10:14]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Rétt í þessu samþykkti Alþingi að framkvæmd Vaðlaheiðarganga færi í gang. Það er alveg sérstakt ánægjuefni að það skuli hafa tekist að ná fram einu af stóru atriðunum úr stöðugleikasáttmálanum og eins að svo stór samgönguframkvæmd þurfi ekki að koma niður á forgangsröðun annarra samgönguverkefna þar sem þetta verður að fullu fjármagnað í einkaframkvæmd með veggjöldum eins og lagt var upp með. Það er mikið ánægjuefni, enda mikil búsetu- og öryggisbót fyrir utan afar jákvæð áhrif á atvinnustig og byggðarleg skilyrði á þessu svæði og fagna ég því enn og aftur.

En ég vildi spyrja hæstv. forsætisráðherra út í það sem lagt var upp með á sínum tíma, að einnig yrði ráðist í stórfelldar framkvæmdir upp á milljarða í samgöngumálum með sama hætti hér á suðvesturhorninu. Slíkar framkvæmdir mundu augljóslega hafa gríðarleg áhrif núna hvað varðar öryggi vegfarenda og með tilliti til atvinnu, enda stórar og mannaflsfrekar framkvæmdir, og því væri mjög mikilvægt að ná samstöðu um að fara í þær. Þá er ég að tala um framkvæmdir eins og Sundabraut, Vesturlandsveg, Suðurlandsveg og fleiri slíkar stórframkvæmdir sem væri hægt að fara í með því að greiða þær í gegnum notendagjöld, sem kæmu þá að einhverju leyti í staðinn fyrir eldsneytisskattana sem núna eru viðhafðir, og rafrænnar innheimtu veggjalda og fleira eins og við höfum talað um. Ekki náðist á sínum tíma samstaða um útfærslu með sveitarfélögunum, en fyrst og fremst þarf að fara í þetta með fullu afli pólitískrar forustu, stilla saman strengi þingmanna, sveitarstjórnarmanna og annarra sem þurfa að ná samstöðu um þessi mál, og hrinda þessum stórbrotnu framkvæmdum af stað.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Er (Forseti hringir.) slíkra framkvæmda sem Vaðlaheiðarganga að vænta á suðvesturhorninu í einkaframkvæmd?