140. löggjafarþing — 25. fundur,  17. nóv. 2011.

deilur við ESB um makrílveiðar.

[10:21]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur varla farið fram hjá nokkrum Íslendingi að Íslendingar eru að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Sá sem hér stendur hefur átt því láni að fagna, ef svo má að orði komast, að eiga góð samtöl við marga sérfræðinga á sviði sjávarútvegsmála á Evrópuþinginu á undanförnum dögum og vikum og hefur sjávarútvegskaflann vissulega borið mjög á góma og sýnist sitt hverjum hvað hann varðar. Eftirtektarvert er að heyra þessa sérfræðinga minnast á einn helsta þröskuldinn, að þeirra sögn, í vegi þess máls sem varðar kannski ekki endilega veiðar Íslendinga í eigin lögsögu heldur deilur Evrópuþjóðanna og Íslendinga um makrílveiðar. Að mati margra sem ég ræddi við er þetta kannski einn helsti þröskuldurinn í vegi þess að menn geti opnað sjávarútvegskaflann. Ég tel að deilurnar setji mjög vandræðalegan svip á samskipti þjóðanna í þessu tilliti.

Því spyr ég hæstv. utanríkisráðherra um feril þessarar deilu, hvernig henni er háttað af hálfu Íslendinga og samningamanna sem um hana fara, hvar á vegi samningaviðræður eru staddar því að eins og ég gat um telja sérfræðingar margir hverjir í Evrópu að samningar, þó ekki væri nema tímabundnir samningar um þetta atriði, geti hjálpað Íslendingum mjög í þá átt að ná góðum samningum um þann viðamikla og viðkvæma málaflokk sem sjávarútvegskaflinn er í viðræðum okkar Íslendinga við Evrópuþjóðirnar í því ferli sem nú stendur yfir.