140. löggjafarþing — 25. fundur,  17. nóv. 2011.

deilur við ESB um makrílveiðar.

[10:23]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég er ekki sammála hv. þingmanni um það að makrílmálið hafi komið upp sem sérstakur ásteytingarsteinn í samskiptum Evrópusambandsins og Íslands í þeim samningaviðræðum sem hafnar eru. Sama gildir um þær undirbúningsviðræður sem segja má að hafi staðið í töluverðan tíma vegna undirbúnings að því að hefja viðræður um sjávarútvegskaflann. Afstaða Íslendinga í makrílnum er alveg ljós. Við þekkjum deilur af þessu tagi og erum vön því að leiða þær til lykta. Um þær samningaviðræður sem við munum eiga í við Evrópusambandið um fisk tel ég að ekkert á þessari stundu bendi til þess að makríll geti þyngt þær með einhverjum hætti. Þó vil ég taka fram að þegar ég var spurður þessarar spurningar af hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni þá útilokaði ég það ekki að á einhverjum tíma gæti þetta orðið, eins og ég kalla það, möl í gangvirkið.

Ég tel að það sem er erfiðleikum bundið við að opna sjávarútvegskaflann í dag sé sú staðreynd að Evrópusambandið sjálft er að endurskoða sjávarútvegsstefnu sína og hefur ekki lokið því. Það hefur tafist. Meðan það liggur ekki fyrir er erfitt að hefja samningaviðræður án þess að hafa þekktan grunn.

Að því er varðar makríldeilurnar þá eru þær á forræði annars ráðherra. Ég get hins vegar upplýst hv. þingmann um að það var fundur núna í síðasta mánuði í Lundúnum sem var mun jákvæðari en aðrir fundir um þetta efni. Það hefur nokkuð skort á það að viðsemjendur okkar, Evrópusambandið og Noregur, hafi sameiginlegan front í þessum málum. Þeir þurfa að koma sér saman um þau. Eftir nokkra daga, í næsta mánuði, er fyrirhugaður annar fundur á Írlandi um makrílmálin. Það er betra hljóð í mönnum en við skulum sjá hvað setur, ekki þori ég að spá um að hægt verði að ná saman um þetta mál. (Forseti hringir.) Þetta er erfitt mál.