140. löggjafarþing — 25. fundur,  17. nóv. 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

[10:28]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil beina spurningu til hæstv. iðnaðarráðherra um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Á árinu voru sett lög um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða sem er ætlað að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða í opinberri eigu og einnig er sjóðnum ætlað að fjölga viðkomustöðum ferðafólks til að draga úr álagi á fjölsótta ferðamannastaði. Ég vildi spyrja ráðherra hvort þær tekjur sem sjóðurinn fær séu lægri en áætlað var í upphafi og hvort sjóðurinn komi til með að standa undir því hlutverki að tryggja öryggi ferðamanna og vernda náttúru og fjölga viðkomustöðum ferðafólks.

Einnig vil ég spyrja hvort þjóðgörðum og friðlýstum svæðum sé tryggt nægilegt fjármagn til að mæta þeim mikla ferðamannafjölda sem spáð er að komi til landsins á næstu árum.