140. löggjafarþing — 25. fundur,  17. nóv. 2011.

framtíð sparisjóðakerfisins.

[11:05]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Við bankahrunið 2008 blasti við að staða margra sparisjóða var mjög erfið, þeir voru stórlaskaðir og þurftu margir að fá fjárhagslegan stuðning til að uppfylla lágmarkskröfur um eigið fé enda var ráð fyrir því gert í neyðarlögunum. Menn sáu auðvitað strax fyrir að sparisjóðirnir mundu taka á sig þungt högg eins og aðrir, enda fór svo að sumum þeirra varð ekki bjargað og þeir fóru í þrot.

Við fall Sparisjóðabankans í byrjun árs 2009 varð þetta endanlega ljóst og þar með varð Seðlabanki Íslands einn af stærstu kröfuhöfum í marga smærri sparisjóði. Upp úr því spratt samstarf fjármálaráðuneytis og Seðlabankans um fjárhagslega endurskipulagningu á fimm sparisjóðum sem Seðlabankinn stjórnaði. Þá var hluta af skuldum breytt í eigið fé og víkjandi lán og sömuleiðis var veitt almenn lánafyrirgreiðsla samhliða afskriftum á stofnfé. Þessu ferli lauk um áramótin 2010/2011 og þá tók Bankasýsla ríkisins við eignarhlut í þessum sparisjóðum.

Staðan er þannig í dag að Bankasýslan fer með stofnfjárhluti ríkisins í fimm af tíu sparisjóðum landsins sem eru Sparisjóður Bolungarvíkur þar sem ríkið á 90,9%, Sparisjóður Norðfjarðar þar sem ríkið á 49,5%, Sparisjóður Svarfdæla þar sem ríkið á 90%, Sparisjóður Vestmannaeyja þar sem ríkið á 55,3% og Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis þar sem ríkið á 75,8%. Tveir sparisjóðir eru í eigu Arion banka, þ.e. Afl sparisjóður og Sparisjóður Ólafsfjarðar, og hinir þrír eru Sparisjóður Höfðhverfinga, Sparisjóður Strandamanna og Sparisjóður Suður-Þingeyinga. Þessir hafa enn sem komið er spjarað sig fyrir eigin rammleik.

Þá þekkja menn söguna um Byr og Sparisjóð Keflavíkur sem fóru í þrot og Alþingi er gagnkunnugt því hvernig með mál þeirra hefur verið farið síðan. Þar þróuðust mál á annan veg en menn vonuðu í byrjun, sérstaklega hvað varðar Sparisjóð Keflavíkur. Í ljós kom að staða hans var slík að enginn grundvöllur var fyrir áframhaldandi rekstri. Í tilviki Byrs var hinn nýi banki, Byr hf., settur í opið söluferli og Íslandsbanki var þar hlutskarpastur. Nú liggur fyrir samþykki Fjármálaeftirlits, Samkeppniseftirlits, ESA og Alþingis á því að þau kaup geti gengið fram.

Stjórnir tveggja sparisjóða hafa samþykkt að setja þá í söluferli, þ.e. Sparisjóð Svarfdæla og Sparisjóð Norðfjarðar, og Bankasýslan fer eðli málsins samkvæmt með það fyrir hönd ríkisins en niðurstaða liggur þar ekki fyrir. Í tilviki Sparisjóðs Norðfjarðar er ríkið auðvitað minnihlutaaðili og stjórnar ekki ferðinni.

Fjármálaráðuneytið og efnahags- og viðskiptaráðuneytið hafa að undanförnu átt samráð um framtíðarmálefni sparisjóðanna, m.a. á grundvelli þeirrar greiningarvinnu sem unnin hefur verið af Bankasýslu ríkisins og í samstarfi við Fjármálaeftirlitið sem sömuleiðis hefur skrifað stjórnvöldum af þessu tilefni og óskað eftir viðræðum um málefni sparisjóða. Í þessari vinnu er líka verið að huga að lagaumhverfinu sem hér var nefnt af málshefjanda og hvernig megi gera breytingar á því til að tryggja betur starfsumhverfi sparisjóðakerfisins. Þá er auðvitað aðallega verið að skoða breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki og þau ákvæði sem snúa að félagaforminu, samstæðuákvæðum og að takmörkunum sem lúta að meðferð arðs eða hagnaðar. Þessi skoðun mun að sjálfsögðu einnig taka mið af því að sparisjóðirnir geti haldið áfram starfsemi sem eiginlegir sparisjóðir og girt verði fyrir alla möguleika á braski af því tagi sem að lokum lék sparisjóðakerfið mjög grátt.

Rekstrarumhverfi sparisjóðanna þarf sömuleiðis að skoða, þ.e. sameiginlegan þjónustukostnað þeirra. Þó að þegar hafi náðst umtalsverður árangur í að auka þar hagkvæmni er ljóst að mikilvægt er að kerfið geti staðið undir sér og að það sé valkostur fyrir minni aðila á fjármálamarkaði sem vilja koma þar inn. Ríkisvaldið hefur fyrir sitt leyti þegar lagt mikið af mörkum til að reyna að tryggja rekstrargrundvöll þeirra sparisjóða sem á annað borð hefur reynst mögulegt að bjarga, en sparisjóðirnir sjálfir og stjórnir þeirra verða hins vegar að ná samstöðu um margt sín í milli sem snýr að samstarfi þeirra og miðlægri þjónustu. Það er alveg ljóst að vilji stjórnvalda hefur staðið til þess að sparisjóðakerfið geti áfram verið hluti af bankaþjónustu okkar þó að markaðshlutdeild þess sé, eins og nú er komið, orðin afar lítil, en ekki hefur verið mælt með því af hálfu a.m.k. fyrrverandi stjórnar Bankasýslu ríkisins að ríkið legði fram meira fé en þegar hefur verið gert, skattfé til að tryggja framtíð sparisjóðanna.

Spurningin snýst ekki bara um hvort við viljum hafa sparisjóði sem hluta af fjármálaþjónustu okkar heldur líka hvort við sjáum fyrir okkur það framtíðarlandslag í bankaþjónustu að hér verði (Forseti hringir.) eingöngu þrír stórir viðskiptabankar og hugsanlega einn minni einkabanki, allir með höfuðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Sá sem hér talar telur það ekki spennandi framtíðarmynd hvað varðar aðgang landsbyggðarinnar að fjármagni, þjónustu við fólk í afskekktum byggðarlögum (Forseti hringir.) og heilbrigða samkeppni og dreifingu á þessum markaði. Því er mikið í húfi að það takist að verja það sem þó eftir er af sparisjóðum í landinu.