140. löggjafarþing — 25. fundur,  17. nóv. 2011.

framtíð sparisjóðakerfisins.

[11:20]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir að vekja hér máls á mikilvægu efni sem er málefni sparisjóðanna í landinu. Ég er eins og hv. þingmaður sannfærður um mikilvægi sparisjóðanna og hugmyndafræðinnar sem þeir eiga að byggja á. Ég er hlynntur fjölbreytni á fjármálamarkaði en ekki fábreytni. Er það virkilega svo að framtíðarsýn okkar í kjölfar hrunsins sé sú að einungis þrír stórir aðilar muni gína yfir íslenskum fjármálamarkaði? Ég segi nei, og við framsóknarmenn segjum nei við þeirri niðurstöðu.

Sparisjóðirnir eiga að gegna lykilhlutverki við uppbyggingu nýs fjármálakerfis. Það þarf ekki að minna á hversu mikilvægir þeir hafa verið, sérstaklega landsbyggðinni, þeir hafa þjónustað sín héruð með stakri prýði enda hefur komið í ljós ár eftir ár að mest ánægja með þjónustu fjármálafyrirtækja er með þjónustu sparisjóðanna í landinu. Þeir hafa styrkt menningar- og félagsstarf í nærsamfélagi sínu og ég tek undir að þá á að reisa á þeirri hugsjón sem var hvatinn að stofnun þeirra fyrir meira en öld. Þess vegna veltir maður fyrir sér hver framtíðarsýnin er hjá hæstv. ríkisstjórn þegar tveir af fimm sparisjóðum sem ríkið á hlut í eru nú þegar komnir í söluferli, þegar við ræðum um fjárlagafrumvarp sem felur í sér að stórauka á álögur á starfsemi sparisjóðanna í landinu. Mun það virkilega hjálpa til við að endurreisa sparisjóðakerfið í landinu? Ég segi nei.

Nú er mikilvægt að hæstv. fjármálaráðherra sýni það í verki en ekki bara í orði að við viljum reisa sparisjóðakerfið við, það er til hagsbóta fyrir fjölbreytni á fjármálamarkaði og til hagsbóta fyrir íslenska neytendur. Og veitir svo sannarlega ekki (Forseti hringir.) af því á þessum markaði.