140. löggjafarþing — 25. fundur,  17. nóv. 2011.

framtíð sparisjóðakerfisins.

[11:29]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna og vildi óska þess að við hefðum meiri tíma til að ræða það sem hv. þm. Magnús Orri Schram kom inn á, mismunandi tillögur, lausnir og hugmyndafræði sem tengjast sparisjóðunum, jafnvel fjármálakerfinu í heild. Þetta er nokkuð sem ég hef kallað eftir í töluverðan tíma og hef þess vegna verið mjög ósátt við að teknar væru varanlegar ákvarðanir um form og rekstur á fjármálamarkaði með sölu, einkavæðingu, á fjármálafyrirtækjum án þess að fyrir lægi hvert við stefnum.

Ég ítreka spurningar mínar til fjármálaráðherra. Ég hef lagt fram munnlega fyrirspurn um það hvort ekki þurfi að vera með formlega eigendastefnu um öll fyrirtæki í eigu ríkisins, ekki bara fjármálafyrirtækin eins og er búið að samþykkja sem var þó þakkarvert. Það á bara að fá inn þingmál, ekki fela lagaheimildir, stóra ákvörðun í fjárlögunum heldur að við tökum þrjár umræður í þingsal, í nefnd, fáum umsagnir og getum mótað afstöðu til þess hvað við viljum í raun.

Hvað varðar athugasemdir um orðanotkun hef ég alltaf skilið orðið einkavæðingu sem sölu á ríkiseignum. Hvað er þetta annað? Það getur vel verið að það sé óþægilegt en þetta er einkavæðing. Ef við horfum á reynslu nágrannalanda okkar tengist eignarhald þeirra á bönkum fjármálakreppu, nákvæmlega eins og við stöndum frammi fyrir. Til dæmis í Noregi var tekin ákvörðun um að halda þriðjungshlut í DnB NOR sem þeir eignuðust í framhaldi af fjármálakreppu. Þess vegna vildi ég fá að heyra hvort hér væri sama stefna hvað það varðar. Ég tel að við eigum virkilega að horfa til Noregs vegna lagabreytinga (Forseti hringir.) fyrir sparisjóðina.

Ég ítreka sérstaklega það sem ég sagði um aðkomu ólíka hagsmunaaðila, að við endurskoðum skattumhverfið eins og er í norsku löggjöfinni. Það er nokkuð sem við getum gert (Forseti hringir.) og við eigum að gera alvöru úr því sem við erum að tala um, að vilja endurreisa og hafa starfandi sparisjóðakerfi á Íslandi.