140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

breyting á lögum um stjórn fiskveiða.

[15:13]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Það eru augljóslega áhöld um það hvort hæstv. sjávarútvegsráðherra njóti trausts formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og það er nauðsynlegt að fá fram raunverulega stöðu á fiskveiðistjórnarmálinu núna.

Það hefur komið fram hjá hæstv. forsætisráðherra að hún telur vinnubrögð ráðherra sjávarútvegsmála óásættanleg og að ríkisstjórnin muni setja ráðherranefnd til að fara yfir málið, þ.e. málið er hrifsað af hæstv. sjávarútvegsráðherra. Ég spyr því hæstv. fjármálaráðherra: Hver er raunveruleg staða fiskveiðistjórnarmálsins? Hefur verið skipuð formleg ráðherranefnd, samanber 9. gr. laga um Stjórnarráðið, til að fara með þetta mál? Hverjir sitja í henni? Eða er nefndin undir forustu Jóhönnu Sigurðardóttur eins og kveðið er á um í þeim lögum? Svo spyr ég aftur eins og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gerði: Tekur hæstv. fjármálaráðherra þar með undir með formanni þingflokks síns um að stóll hæstv. ráðherra sjávarútvegsmála sé farinn að rugga og að hann þurfi að skoða stöðu sína nákvæmlega? Tekur hann þá jafnframt undir með öðrum stjórnarliðum sem hafa nánast rekið hæstv. sjávarútvegsráðherra úr ríkisstjórninni?