140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

breyting á lögum um stjórn fiskveiða.

[15:16]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Þá kemur það sjálfsagt heldur ekki Íslendingum við hvort ráðherra sem fer með mikilvægasta málaflokk þjóðarinnar njóti trausts síns flokks eða ekki. Það virðist bara ekki koma þjóðinni neitt við. Það er einkamál þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hvernig haldið er á sjávarútvegsmálum í landinu. (Gripið fram í.) Þetta er mjög athyglisvert hjá hæstv. fjármálaráðherra.

Hitt er annað mál að samkvæmt lögum um Stjórnarráðið þarf að skipa ráðherranefndir með sérstökum hætti. Hér upplýsir hæstv. fjármálaráðherra að búið sé að setja á fót verkstjóra til að fara með sjávarútvegsmál og hæstv. sjávarútvegsráðherra kemur þar hvergi nærri. Hann fær ekki einu sinni að vera í nefndinni. Hann er vinnuhjú hjá verkstjórunum í málinu.

Hvernig er það, er farið eftir 9. gr. laga um Stjórnarráðið hvað þetta varðar? Þar er gert ráð fyrir að hæstv. forsætisráðherra stýri öllum fundum slíkrar ráðherranefndar. Er það sem sagt þannig að hæstv. forsætisráðherra, hæstv. menntamálaráðherra og hæstv. velferðarráðherra hafa tekið stjórn sjávarútvegsmála í sínar hendur? (Gripið fram í: Stórkostlegt.)