140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

Grímsstaðir á Fjöllum.

[15:20]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þau sjónarmið sem fram komu í máli hv. þm. Skúla Helgasonar. Í fyrsta lagi segir hann að það hafi verið rökrétt ákvörðun að hafna undanþágubeiðni um kaup á 300 ferkílómetra lands á Norðausturlandi við Grímsstaði á Fjöllum. Í öðru lagi bendir hann réttilega á að mínu mati að jarðnæði, land, sé ein mikilvægasta auðlind hverrar þjóðar en hann spyr hvort aðrir kostir kynnu að vera í stöðunni og þar á meðal að leigja viðkomandi aðila landið.

Ég vil vekja athygli Alþingis á misskilningi sem hefur farið hátt í fjölmiðlum, nefnilega þeim að um sé að ræða leigu eða kaup á landi til einstaklings. Það er ranghugmynd. Um er að ræða beiðni frá fyrirtækjasamsteypu, frá hlutafélagi sem að sönnu er að meirihlutaeign í eigu tiltekins einstaklings, en það var hlutafélag, það var fyrirtækjasamsteypa sem sérhæfir sig m.a. í fasteignaviðskiptum sem óskaði eftir kaupum á þessu landi. Sú beiðni var til umfjöllunar í innanríkisráðuneytinu.

Ég vek athygli á því að um kaup hlutafélaga á landi utan EES gilda sérstakar reglur og forsendur þurfa að vera til staðar til að slíkt gangi upp og þær voru engar til staðar. Þetta var það eina sem var til umfjöllunar í ráðuneytinu en ekki aðrir valkostir.