140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

kolefnisgjald.

[15:25]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Fyrir örfáum vikum lagði hæstv. fjármálaráðherra fram frumvarp sem fól í sér að leggja sérstakan kolefnisskatt á íslenskan iðnað sem væri í raun og veru tvískattlagning og er vegna þess að þetta frumvarp liggur fyrir þinginu. Frumvarp sem hefði haft þau áhrif að atvinnuuppbygging í Þingeyjarsýslum og á Reykjanesi hefði farið í uppnám, starfsemi járnblendiverksmiðjunnar hefði lagst af. Í raun og veru má færa fyrir því rök að að minnsta kosti eitt þúsund störf mundu tapast í íslensku samfélagi er þetta frumvarp yrði að veruleika og er nú ekki á það bætandi.

Nú heyrum við samkvæmt fréttum frá Samtökum atvinnulífsins að hæstv. ráðherra hafi tilkynnt að hann ætli að draga þessar fyrirætlanir sínar til baka sem ég fagna. Vil ég fá staðfestingu á því hér hvort hæstv. ráðherra sé búinn að skipta um skoðun núna á nokkrum dögum um að ætla að innheimta þennan skatt af atvinnulífinu.

Það er nefnilega þannig að frá því að núverandi ríkisstjórn komst til valda hefur hringlandahátturinn hvað varðar skattlagningu á atvinnulíf verið með eindæmum. Mikil óvissa og þá sérstaklega pólitísk óvissa og óvönduð vinnubrögð eru farin að stórskaða íslenskt samfélag. Ég spyr hæstv. ráðherra: Gerði hann sér ekki grein fyrir því hvaða áhrif kolefnisskatturinn mundi hafa á einstakar atvinnugreinar í landinu, atvinnuuppbyggingu í landinu og kannski ekki hvað síst þau störf sem eru þó enn til staðar í íslensku samfélagi? Var þessu bara hent fram svona til að athuga viðbrögðin? Eða hafði virkilega ekki verið kannað hvaða áhrif aukin skattlagning eins og í þessu tilfelli hefði á íslenskt atvinnulíf og ríkissjóð, sem stendur nú ekki vel fyrir í þessu samhengi, vegna þess að að sjálfsögðu mundu tapast miklar tekjur yrði þetta samþykkt?