140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

kolefnisgjald.

[15:27]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er misskilningur að það hafi nokkurn tíma staðið til að vera með eitthvað sem menn gætu kallað tvísköttun í þessum efnum. Ekki þarf annað en lesa greinargerð frumvarpsins til að sjá það, því að þar er sérstaklega talað um að í vændum sé fyrirkomulag uppboðs á losunarheimildum og á kaupum aðila, sérstaklega stórnotenda, á þeim, og að kolefnisskattlagningu að öðru leyti þurfi að stilla af miðað við það sem þar er í vændum, að sjálfsögðu.

Staðan er sú í dag að kolefnisgjald er lagt á allt jarðefnaeldsneyti, með öðrum orðum á allt annað atvinnulíf en stórnotendurna, stórlosendurna, og á alla umferð. Auðvitað er ekki óeðlilegt að yfir það sé farið hvort í einhverjum mæli eigi þeir sem losa kolefni í gegnum aðföng á föstu formi að leggja þarna sitt af mörkum. Eða finnst hv. þingmanni að það eigi alltaf að höggva í sama knérunn, eins og sagt var hérna forðum, og hækka frekar skattana á almenning en að dreifa byrðunum með þeim hætti sem við höfum reynt að gera með því að láta bæði atvinnulíf og þá ekki síst þær greinar sem búa við góða afkomu greiða til þess?

Þetta er þróunin í skattamálum í löndum í kringum okkur að umhverfisgjöld og mengunarskattar af ýmsu tagi eru að ryðja sér til rúms á grundvelli mengunarbótareglunnar að sá borgi sem mengar. Hugmyndafræðin er líka úr þeirri átt. Varðandi framtíð gjaldsins að þessu leyti stóð engin gildistaka til í þessum efnum fyrr en 2013 þó að þau áform væru sýnd í þessu frumvarpi. Og það er rétt sem fram kom á góðum fundi sem ég átti með forustumönnum Samtaka atvinnulífsins og fulltrúum iðnaðarins í dag að þar var rætt um að við mundum setja saman viðræður um allt skattalegt umhverfi að þessu leyti, framtíðina sem í vændum er varðandi losunarheimildirnar og önnur mál, bæði nýrra og eldri fjárfestingarverkefna sem þarna eiga í hlut, með það að markmiði að varðveita samkeppnishæfni Íslands og gott starfsumhverfi (Forseti hringir.) og þá yrði þeim áformum slegið á frest sem núna eru í bandormsfrumvarpinu.