140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

tjón af manngerðum jarðskjálfta.

152. mál
[15:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir tæpitungulaus svör. Hann skýrði stöðuna. Þetta hefur verið vanmetið í umhverfismatinu á sínum tíma og lög um umhverfismat eru gölluð hvað þetta varðar.

Hér er um að ræða sérstakt tilfelli og við erum auðvitað að feta nýja slóð. Við erum að ráðast í miklar og stórbrotnar jarðnýtingar, orkuframkvæmdir fyrir norðan og mögulega líka á Suðurlandinu. Þetta þarf að skýra.

Það er algjörlega ófært að fólk sitji óbætt hjá garði. Það þarf að vera alveg skýrt hvers er að bæta tjónið. Ráðherra sagði hreint út áðan að þetta væru mjög sérstök tilfelli og að eins og staðan er núna bæri fólki sem verður fyrir slíku tjóni að beina kröfum að tjónvaldi, þ.e. Orkuveitu Reykjavíkur og þá tryggingafélagi þess. Það er ekki fullnægjandi staða. Þar með stendur fólk sem hugsanlega lendir í umtalsverðu tjóni með annaðhvort innbú eða fasteignir frammi fyrir því að þurfa að sækja málið fyrir dómstólum. Það getum við ekki sætt okkur við. Við viljum að lögin séu alveg skýr, að þetta verði tekið til endurskoðunar af því að við sjáum hvaða tjón getur framkallast af jarðhræringum og niðurdælingum. Það þarf að taka tillit til þess. Það er ekki hlutverk Viðlagatryggingar núna. Það er skýrt hjá ráðherra og örugglega rétt túlkun og þá þarf að meta það. Hvort sem við bætum því inn í hlutverk hennar að bæta jarðskjálftatjón sem til kemur af þessu eða ekki þarf það að vera alveg á hreinu að tryggingafélög orkufyrirtækjanna — þetta er afmarkað við þau þrjú orkufyrirtæki sem vinna orku úr jarðvarmanum — eigi að bæta tjónið. Það verður að koma sjálfkrafa til fólks eftir að það hefur tilkynnt um tjón.

Það er alveg á hreinu að við munum ekki sætta okkur við að fólk sitji óbætt hjá garði og þurfi að sækja tjónabætur til tryggingafélaganna í gegnum dómstóla og því spyr ég hæstv. ráðherra aftur hvernig hann sjái bestu leiðina út úr þessu. Hvaða lögum eigum við að breyta þannig að það sé alveg á hreinu hvers sé að bæta tjónið í hverju einasta tilfelli?