140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

Viðlagatrygging Íslands.

210. mál
[16:05]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargott svar, sérstaklega hvað varðar kjarna málsins, að nú í þeirri hrinu náttúruhamfara sem við upplifum, bæði hvað varðar mikil eldgos og jarðskjálfta og möguleg eldgos sem allir vita að geta átt sér stað — þau geta valdið miklu tjóni og þá geta orðið miklar hamfarir — að við drögum lærdóm af reynslunni jafnóðum, líkt og stjórnvöld gerðu milli jarðskjálftanna miklu 2000 og 2008. Lögum, reglum og vinnubrögðum var breytt verulega þannig að meðferð mála var miklu fumlausari og öruggari árið 2008 en 2000. Eins þurfum við að læra af þeim hnökrum sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson benti á áðan að væru á þessum málum og beina sjónum að öðru brýnu máli sem er grundvallarmannréttindi, vatnsbúskapur til sveita sem er mikið til á ábyrgð einstaklinga en ekki opinberra aðila. Sérstaklega skora ég á hæstv. ráðherra að taka það allt með við endurskoðun á lögunum og einnig þá óvissu sem er (Forseti hringir.) vegna manngerðu jarðskjálftanna. Það er óþolandi að óvissa sé um þau mál.