140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

heiti Ríkisútvarpsins.

167. mál
[16:13]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Mér er ljúft og skylt að svara samkvæmt bestu getu þessari mikilvægu fyrirspurn: Hvað heitir Ríkisútvarpið? Ég held að nærtækast sé að vísa þar í heitið samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf. Þar kemur skýrt fram að Ríkisútvarpið ohf. sé „sjálfstætt hlutafélag í eigu íslenska ríkisins“. Síðan er vísað til samþykktar fyrir félagið og einnig má vísa til þess að þar kemur heitið fyrir. Jafnframt má vísa til þess að fyrirtækið er skráð í fyrirtækjaskrá með sínu lögformlega heiti, Ríkisútvarpið ohf. Það er alveg ljóst að Ríkisútvarpið heitir Ríkisútvarpið, það heitir það í lögum og fyrirtækjaskrá og mér vitanlega hafa ekki verið teknar neinar ákvarðanir um það á aðalfundi fyrirtækisins eða annars staðar að heiti þess hafi verið breytt, enda er það ekki hægt. Hitt er ljóst að það er tiltölulega algengt að fjölmiðlafyrirtæki, að ríkisfjölmiðlum meðtöldum, auðkenni sig með einhvers konar orðmerki eða skammstöfun sem er þá yfirleitt skammstöfun á fullu heiti viðkomandi lögaðila. Þannig þekkjum við dæmin frá nálægum löndum, SVT er Sveriges Television, DR er Danmarks Radio, danska ríkisútvarpið, NRK er Norsk Rikskringkasting AS, norska ríkisútvarpið, BBC er British Broadcasting Corporation og NPO, Nederlandse Publieke Omroep, svo hollenska ríkisútvarpið sé tekið með í kippunni.

Sum þessara félaga eru sjálfseignarstofnanir, sum hlutafélög, nákvæmlega eins og Ríkisútvarpið ohf.

Ég held að það sé í valdi fyrirtækisins, og ég sé ekki að það stríði gegn lögum um það, að það taki upp slíkt auðkenni, auðkenni sig með skammstöfun sinni. Svo geta menn haft mismunandi smekk gagnvart því hvort það sé við hæfi, en stjórnvöld hafa mér vitanlega ekki tekið neina afstöðu til þess eða blandað sér neitt í það mál svo mér sé kunnugt, a.m.k. ekki fjármálaráðuneytið, því að okkar afskipti eru jú þau sem hv. þingmaður nefndi, að fara með hlutabréfið og mæta fyrir hönd eigandans á aðalfundi fyrirtækisins. Að öðru leyti er því skipuð stjórn og síðan um mál þess faglega fjallað af hálfu menntamálaráðuneytisins.

Svo ég lýsi viðhorfum mínum finnst mér persónulega skemmtilegra að tala um Ríkisútvarpið fullu nafni, að það sé kallað Ríkisútvarp eða þá gamla góða gæluorðið Gufan. Hitt er alsiða, eins og ég hef farið yfir, og þykir væntanlega þjálla eða styttra eins og hv. þingmaður nefndi reyndar, að löng nöfn opinberra jafnt sem einkafyrirtækja séu stytt niður í einhvers konar auðkenni, skammstöfun eða einhvers konar auðkenni. Hv. þingmaður nefndi eitt ágætt dæmi, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, sem í daglegu tali er kölluð ÁTVR þannig að segja má að þetta sé nokkuð í samræmi við hefð sem mótast hefur og er þekkt bæði hjá okkur og öðrum.

Þetta er sem sagt svarið, Ríkisútvarpið heitir Ríkisútvarpið að lögum, samkvæmt samþykktum og skráningu í fyrirtækjaskrá. Það er hið rétta heiti Ríkisútvarpsins.