140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

heiti Ríkisútvarpsins.

167. mál
[16:19]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hafði leitt hugann að sumu af því sem hv. þingmaður tók hér upp, að þetta sé öðrum þræði einhvers konar auglýsingamál, einhver markaðssetning, sem er alþekkt þegar fyrirtæki taka upp ný einkennismerki eða auðkenni. Hitt þætti mér jafnvel enn verra, ef Ríkisútvarpið er með þessu á einhvern hátt að fela að það sé ríkisútvarp eða almannaútvarp. Ég sé í fljótu bragði ekkert því til fyrirstöðu að Ríkisútvarpið noti hvort tveggja jöfnum höndum eða þannig að í merki kæmi fram að um ríkisútvarpið væri að ræða og síðan undirlína skammstöfun RÚV, og sýndi þá það sem notað væri dagsdaglega. Um málfræðina er hv. þingmaður mér miklu fróðari og ég hætti mér lítið út á þann ís, ég hafði satt best að segja ekki tekið eftir því sem hann upplýsti réttilega. Ég hygg að það sé rétt, þegar maður fer að hugsa málið, að skammstöfunin sem orð sé ekki látin beygjast eins og eðlilegt og málfræðilega rétt væri.

Auðvitað er þetta mál sem menn þurfa að velta betur fyrir sér og eftir atvikum ræða við stofnunina. Ég held að það sé ekki frumskylda okkar út frá eigandahlutverkinu að hafa á þessar djúpar skoðanir í fjármálaráðuneytinu þannig að ég mundi byrja þann leiðangur á því að ræða við menntamálaráðuneytið og sjá svo til hvort okkur þykir ástæða til að fara sameiginlega með þetta á vettvang stofnunarinnar.