140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

tvöföldun Hvalfjarðarganga.

270. mál
[16:29]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég blanda mér í þessa umræðu til að nefna að gerð Hvalfjarðarganga á sínum tíma er einhver glæsilegasta aðgerð í samgönguumbótum á Íslandi sem gerð hefur verið. Vil ég nota tækifærið til að þakka fyrrverandi samgönguráðherra sem hér var í pontu á undan mér fyrir framgöngu hans í málinu þó mjög seint sé.

Það er ástæða til að tala fyrir auknum framkvæmdum af þessu tagi. Að mínu mati er þetta sjálfbær framkvæmd og eðlilegt að skoða hana á þeim tímum sem við lifum nú þegar við þurfum á meiri framkvæmdum að halda. Þessi göng og tvöföldun þeirra mun að mati þeirra sem gerst þekkja til vera sjálfbær framkvæmd, rétt eins og ég tel að Vaðlaheiðargöng séu einnig, enda var búist við því að umferð um Hvalfjarðargöng á sínum tíma yrði ekki nema brot af því sem síðar varð. Svo verður einnig um önnur göng fyrir norðan.