140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

tvöföldun Hvalfjarðarganga.

270. mál
[16:33]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ekki mun standa á mér að ræða við rekstraraðila Hvalfjarðarganga og fara yfir áform þeirra. Alveg sjálfsagt mál. Ég ætla ekki að svara neinu fyrir fram um beiðni sem hefur ekki komið fram nema þá svona í gegnum fjölmiðla, um hvort standa þyrfti að fjármögnun þeirra sem sambærilegum hætti og nú stendur til varðandi Vaðlaheiðargöng.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að ekki voru síður miklar efasemdir um Hvalfjarðargöng og ákveðin hræðsla við að fara í fyrstu jarðgöngin hér á landi undir hafsbotn. Það voru líka efasemdir uppi um að verkið mundi standa undir sér og að ríkið gæti þurft að hlaupa undir bagga. Svo var það alveg nákvæmlega eins og hv. þingmaður nefnir og er ágætt að rifja upp núna, að mjög margir voru þeirrar skoðunar að ef ríkið þyrfti beinlínis að leggja fram fjármuni í Hvalfjarðargöng, þá væri ekki réttlætanlegt að taka þá fjármuni út úr samgönguáætlun og setja í þessa framkvæmd, aðrir hlutir væru brýnni, nákvæmlega eins og varðandi Vaðlaheiðargöng. Ég hygg að ekki sé pólitísk samstaða um það í landinu að taka mikla fjármuni út úr samgönguáætlun á komandi árum til að byggja göngin, þá væri verið að taka þau fram fyrir annað í röðinni sem meiningin er að byggja með hefðbundnum hætti fyrir vegafé. Þess vegna standa Vaðlaheiðargöng og falla með því að útreikningar sýni að þau muni verða sjálfbær innan ásættanlegs tíma og sem betur fer hafa útreikningar fram að þessu sýnt það. Þá verða þau nákvæmlega sams konar framkvæmd sem styttir umferð, eykur umferðaröryggi, sparar eldsneyti og tíma, slit á bílum og er í þágu umhverfisins. Ég treysti því að hv. þm. Mörður Árnason, með sama hætti og hann hefur farið hér vel yfir viðhorf sín til Hvalfjarðarganga og þess vegna tvöföldunar þeirra þegar þess þarf, styðji líka byggingu Vaðlaheiðarganga.