140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

Drekasvæði.

241. mál
[16:38]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hvar á vegi er þetta mál statt? Ég mundi telja að það væri á ansi góðum vegi statt eins og málum er nú fyrir komið. En ég ætla að svara spurningum hv. þingmanns í skipulegri röð.

Hv. þingmaður spyr fyrst: „Hvað líður stofnun starfshóps um vinnslu jarðefna á svonefndu Drekasvæði?“

Í október á síðasta ári óskaði iðnaðarráðuneytið eftir tilnefningum frá Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppi auk tilnefninga frá utanríkisráðuneyti og fjármálaráðuneyti í starfshóp, sem hv. þingmaður nefndi áðan, til að fylgjast með þróun leitar og vinnslu jarðrænna auðlinda á hafsvæðinu norður og austur af landinu í þeim tilgangi að geta boðið fram hafnaraðstöðu og þjónustu fyrir rannsóknarstarfsemi og vinnslu. Þá var einkum verið að horfa til framvindu á Drekasvæðinu en það var líka verið að horfa til þróunar mála og framvindu við Austur-Grænland og opnunar siglingaleiða um Íshafið. Því var verið að horfa á málið á víðum grunni. Ákveðið var að fulltrúar þessara aðila hittust til að ræða efnistök, umfang og kostnað áður en gengið væri frá skipun starfshópsins og haldinn undirbúningsfundur á Akureyri þar sem var ákveðið að heimamenn skoðuðu sérstaklega nokkra verkþætti sem gætu rúmast innan hóflegra kostnaðarmarka.

Að þessu hefur verið unnið síðan. Sú vinna hefur ekki verið slegin af af hálfu iðnaðarráðuneytisins. Það er von mín að við munum sjá framhald á þeirri vinnu á næstunni þó að hún hafi legið niðri síðustu mánuði. Ég vona það svo sannarlega.

Í öðru lagi er ég spurð: „Hvert hefur samstarf ráðuneytis og sveitarfélaga verið í þessum efnum?“

Þá er skemmst frá því að segja að á 135. löggjafarþingi 2007–2008 var samþykkt þingsályktunartillaga um að fela ríkisstjórninni að aðstoða sveitarfélögin Langanesbyggð og Vopnafjarðarhrepp við að undirbúa og kanna þörf á starfrækslu þjónustumiðstöðvar sem gæti annast alla helstu þjónustu hérlendis við skip sem leita kolvetnis á Drekasvæðinu. Í kjölfarið stofnuðu þessi sveitarfélög einkahlutafélagið Drekasvæðið til að vinna að undirbúningi málsins. Í febrúar 2008 ákvað iðnaðarráðherra að aðstoða sveitarfélögin með fjárframlagi til að standa straum af þarfagreiningu og staðarvalsathugunum fyrir þjónustumiðstöð á svæðinu. Markmiðið var að kanna möguleika og hagkvæmni þess að í Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppi verði reist þjónustumiðstöð fyrir olíuleitina. Einkum var litið til möguleika til uppbyggingar þjónustusvæðis á vinnslustigi olíu og gass í sjó og við Gunnólfsvík og á 167 hektara iðnaðarlóð upp af Gunnólfsvíkinni.

Ítarleg greinargerð var unnin af verkfræðistofunum Eflu og Almennu verkfræðistofunni þar sem tekið var á öllum helstu þáttum staðarvalsmatsins. Frá því matið lá fyrir hefur fulltrúi iðnaðarráðuneytisins ásamt fulltrúum fjármálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis fundað með heimamönnum og rætt um hugsanlegt framhald, eins og fram kom í fyrra svari mínu.

Síðan er spurt, virðulegi forseti: „Hvert hefur samstarf ráðuneytis og erlendra ríkja verið í þessum efnum?“

Skemmst er frá því að segja að við höfum átt mjög gott samstarf við Norðmenn á þessu sviði. Ekki hef ég eingöngu hitt olíumálaráðherra Norðmanna tvisvar á þessu tímabili, eða frá því ég tók við störfum í ráðuneytinu, heldur hefur Orkustofnun átt mjög gott samstarfi við viðeigandi stofnun hjá þeim. Þannig hefur þetta verið mjög víðtækt samstarf. Orkustofnun hefur átt mjög gott samstarf við norsku olíustofnunina á sviði rannsókna. Þar má nefna, eins og hv. þingmaður kom inn á áðan, nýjustu niðurstöður sýnatökunnar í sumar sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum að undanförnu. Það er mjög gott dæmi um slíkt samstarf. Þær rannsóknir staðfesta tilvist móður- og geymslubergs en hvort tveggja er skilyrði þess að olíu sé að finna. Niðurstöðurnar eru mun jákvæðari en reiknað var með. Ljóst er að þær niðurstöður ættu að mínu mati að auka áhuga á því útboði sem nú stendur yfir af hálfu okkar Íslendinga á okkar hluta svæðisins.

Í janúar mun Orkustofnun eiga fyrir hönd íslenskra stjórnvalda samráðsfund með norsku olíustofnuninni um framhaldið en áætlað er frekara samstarf á sviði rannsókna á svæðinu.

Í fjórða lagi er spurt: „Hverjar eru hugmyndir ráðuneytisins um miðstöð fyrir Drekasvæðið?“

Það er auðvitað þannig að við viljum fá sem mesta starfsemi hingað. Sett var ákvæði í lögin þar sem gerð er sú krafa fyrir skilyrði leyfisveitingar að stofnað verði sérstakt félag um þessa starfsemi umsækjanda hér á landi. Það sýnir að við viljum að þessi starfsemi fari að mestu leyti fram hér og við fáum sem mest út úr því hér á landi.

Virðulegi forseti. Þetta útboð stendur núna yfir vegna sérleyfa til rannsóknar og vinnslu kolvetnis á Drekasvæðinu sem ég nefndi áðan. Þegar það liggur fyrir og hvort og þá hvernig rannsóknum og leit á svæðinu verður háttað munum við taka mjög ákveðin skref hvað varðar uppbyggingu miðstöðvar fyrir Drekasvæðið hér á landi þegar við sjáum áhugann og hvers eðlis slík starfsemi verður.