140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

rannsókn á hönnun og framkvæmdum við Landeyjahöfn.

271. mál
[16:58]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Í kjölfar umræðu um fargjöld í Herjólf og siglingar til Þorlákshafnar er svo sem eðlilegt að halda umræðunni áfram eins og hæstv. ráðherra kom sjálfur inn á og ræða Landeyjahöfn. Saga þeirrar hafnar er ekki fögur og óskemmtilegt hversu oft við höfum raunar þurft að ræða hana. Hins vegar má náttúrlega benda á að þær væntingar sem stóðu til þessarar byltingar í samgöngum, og ég held að við séum öllum sammála um að þegar höfnin virkar er um að ræða byltingu í samgöngum milli lands og Eyja, hafa að stórum hluta brostið.

Við vitum að vissulega hafa náttúruhamfarir, eins og hæstv. ráðherra hefur svo sem farið ítarlega í gegnum í ræðustól Alþingis, sett stórt strik í reikninginn. En ég verð að segja að stjórnvöld hafa haft ákveðinn tíma til að bregðast við breyttum aðstæðum. Samt er staðan sú að Herjólfur hefur siglt um nokkra hríð til Þorlákshafnar og ekki virðist vera útlit fyrir að það breytist í náinni framtíð. Frátafir frá Landeyjahöfn hafa verið miklar frá því að höfnin var opnuð og kemur þar til bæði sú staðreynd að sandburður hefur verið meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir og að ekki var gert ráð fyrir að núverandi ferja yrði notuð til siglinganna heldur að fengið yrði nýtt skip sem risti grynnra og tæki á sig minni vind.

Reynslan af minna skipi, Baldri, sýnir samt sem áður að ekki er að öllu leyti við Herjólf að sakast því að jafnvel Baldur tók niðri í Landeyjahöfn meðan hann leysti Herjólf af í haust. Stjórnendur þessara skipa hafa líka ítrekað bent á að mun betri mælitæki þurfi að vera til staðar til að átta sig á þeim straumum sem liggja við höfnina og virðast geta skipt um áttir á milli daga nánast.

Það er ljóst að framkvæmdin hefur frá upphafi verið umdeild, jafnt hvað varðar staðsetningu hafnarinnar og hönnun hennar. Því tel ég mikilvægt að fram fari úttekt á ferlinu öllu og að að slíku komi óháðir aðilar. Slík úttekt er nauðsynleg svo að sátt geti náðst um nauðsynlegar úrbætur á höfninni þannig að það sé tryggt að hún nýtist sem aðalhöfn ferjusiglinga milli lands og Eyja allan ársins hring. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann hyggist beita sér fyrir því að fram fari rannsókn óháðra aðila á hönnun og framkvæmdum við Landeyjahöfn.