140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

rannsókn á hönnun og framkvæmdum við Landeyjahöfn.

271. mál
[17:01]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Eins og allir þekkja var aðdragandinn að byggingu Landeyjahafnar langur en áður en til framkvæmda kom fóru fram viðamiklar rannsóknir. Skipaðir voru samráðs- og stýrihópar sem í samráði við stofnanir ráðuneytisins var fenginn undirbúningur verkefnisins. Jafnvel miðað við aðrar stórframkvæmdir á vegum ríkisins var undirbúningurinn mjög ítarlegur.

Framgangur verksins var falinn Siglingastofnun Íslands sem fékk til samstarfs við rannsóknir og undirbúning aðila hjá innlendum stofnunum auk íslenskra og erlendra sérfræðinga. Að lokum var óháð erlend verkfræðistofa — ég ítreka, óháð erlend verkfræðistofa — fengin til að yfirfara hönnunar- og rannsóknargögnin. Staðfesti sú úttekt gæði undirbúningsvinnunnar. Hönnun hafnarinnar var í samræmi við niðurstöðu rannsóknanna og alþjóðastaðla sem gilda um hafnarmannvirki. Farþegaaðstaða og lóð uppfylla íslenska staðla um slík mannvirki.

Í upphafi var gert ráð fyrir að framkvæmdir fælu í sér byggingu Landeyjahafnar og nýja ferju til siglinga milli lands og Eyja. Framkvæmdir við byggingu hafnarinnar gengu eins og best gerist og stóðust bæði tíma- og kostnaðaráætlanir fullkomlega. Smíði ferjunnar var hins vegar frestað vegna efnahagshrunsins haustið 2008, eins og við þekkjum. Vorið áður en Landeyjahöfn var tekin í notkun varð mikill framburður gosefna niður Markarfljót vegna eldgossins í Eyjafjallajökli, jafngildi tíu ára við venjulegar aðstæður. Hafði þessi gífurlegi framburður þær afleiðingar að veturinn á eftir reyndist erfitt að halda nægjanlegu dýpi til siglinga Herjólfs í höfnina.

Þau vandræði sem skapast hafa við siglingar milli lands og Eyja eru því ekki alfarið tilkomin vegna hönnunar Landeyjahafnar. Nýtt skip sem hentar höfninni hefði eitt og sér dugað til að draga verulega úr þeim óþægindum sem orðið hafa. Ástæðan fyrir því að ekki var gengið frá kaupum á því skipi sem fyrirhugað var að smíða til siglinga í höfnina er öllum kunn og vísa ég aftur í efnahagshrunið.

Mér finnst mikilvægt að menn njóti sannmælis sem að þessum málum komu af mikilli fagmennsku af hálfu Siglingastofnunar og ég vísa einnig í aðra sérfræðinga. Ég minni líka á að það er víðar en á Suðurlandi sem menn hafa þurft að glíma við erfið náttúruöfl og vísa ég í sendnar strendur Jótlands, svo að dæmi sé tekið. Danska strandþjónustan hefur á sínum vegum þrjú til fjögur sanddæluskip sem eru að öllum stundum. Þegar hv. þingmaður segir að stjórnvöld hafi haft drjúgan tíma til að skoða málin þá er þetta mál þess eðlis að það þarf tíma. Það hafa orðið breytingar í náttúruöflunum, í vindáttum. Ég vísa aftur í gosið. Þetta er nokkuð sem þarf að skoða rækilega áður en ráðist verður í framkvæmdir.

Mér finnst mjög mikilvægt að við fáum nýja ferju sem allra fyrst, það er grundvallaratriði. Á þessu ári var skipaður samráðshópur um þróun siglinga í Landeyjahöfn. Hann er skipaður fulltrúum ráðuneytisins, Vegagerðarinnar og Vestmannaeyjabæjar. Hópurinn starfar undir forustu bæjarstjórans í Vestmannaeyjum, Eimskips og Siglingastofnunar. Hópurinn vinnur að því að leita bestu leiða við að halda uppi siglingum við núverandi aðstæður. Verið er að leita lausna, bæði til skemmri og lengri tíma, og eru allir möguleikar skoðaðir í því sambandi, þar með talið að fá til liðs við okkur þá sem hafa yfir sérþekkingu að ráða sem að gagni getur komið. Siglingastofnun hefur fengið óháða aðila sér til halds og trausts. Mér er tjáð að svo verði gert áfram af hálfu Siglingastofnunar, þannig verði áfram unnið. Ég átti fund í morgun með fulltrúum Vegagerðarinnar um þessi mál og fulltrúar úr fyrrnefndum samráðshópi koma til fundar að nýju í ráðuneytinu.

Samgönguáætlun er í þann veginn að koma til Alþingis. Þar er lögð áhersla á að við fáum ferju hið allra fyrsta. Tilkostnaðinum er haldið utan samgönguáætlunar, hann þarf að koma sérstaklega til sögunnar og þá er ég að hugsa um að allir kostir verði skoðaðir, að ríkið kaupi ferju eða bjóði út siglingu og skip milli lands og Eyja.