140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

stofnun þjóðhagsstofnunar.

46. mál
[17:30]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Haustið 2010 þegar ríkisstjórnin var endurnýjuð, getum við kallað það, við ráðherraskipti þar, var gefinn út listi yfir þau verk sem ríkisstjórnin ætlaði að vinna á næstunni. Þar á meðal var það að kanna stofnun þjóðhagsstofnunar sem er eitt af því sem frá hruni, og reyndar lengur, hefur verið á dagskrá framfaraafla í samfélaginu. Sú þjóðhagsstofnun sem þessi hugmynd dregur nafn sitt af var stofnuð 1974 og var sjálfstæð hagstofa. Hún var lögð niður árið 2002 með nokkuð dramatískum hætti. Það var þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, sem stóð fyrir því og af því er töluverð saga sem er hollt fyrir menn að kynna sér nú.

Um þetta var hæstv. forsætisráðherra spurður á fyrra þingi, það var svona um miðjan janúar, og sagði þá að þessi athugun væri á byrjunarstigi og kannski ekkert óeðlilegt. Það þyrfti að skoða Hagstofu Íslands og hlutverk hennar í þessu og má túlka það á þann veg að til greina kæmi að taka þá út úr henni deildir eða skrifstofur til að búa til úr nýja stofnun. Það kæmi líka til álita að stofna sjálfstæða ríkisstofnun í samræmi við tillögur þingmannanefndarinnar forðum sem starfaði þá á vegum Alþingis og hefði það hlutverk að meta og gefa út spár fyrir efnahagslífið á sama hátt og Þjóðhagsstofnun gerði til 1. júlí 2002 þannig að vitnað sé, með leyfi forseta, til skýrslu þingmannanefndarinnar sem hæstv. forsætisráðherra fór með á sínum tíma.

Ég tel rétt að fá upplýsingar um það hvernig þetta starf gangi, kannski ekki síst núna með tilliti til þess að hv. þm. Eygló Harðardóttir hefur með fleiri hv. þingmönnum flutt frumvarp um stofnun þjóðhagsstofu, heitir það. Það frumvarp kom fram rétt eftir að þessi fyrirspurn birtist í haust og er komið til nefndar og þess vegna er rétt að þingheimur viti, og þeir sem fylgjast með, hvað þessari sjálfstæðu athugun á vegum ríkisstjórnarinnar líður.