140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

stofnun þjóðhagsstofnunar.

46. mál
[17:37]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa ágætu fyrirspurn og eins svör hæstv. ráðherra. Það er rétt sem kom fram í máli fyrirspyrjandans, þetta er eitt af þeim málum sem framsóknarmenn hafa sett á oddinn í tillögum sínum um efnahagsmál, að nauðsynlegt sé að þingið hafi aðgang að þjóðhagsstofnun. Það var því nokkuð áhugavert að heyra málflutning hæstv. forsætisráðherra. Hún lýsti því að það væri mikilvægt að framkvæmdarvaldið væri með slíka einingu á sínum snærum í ráðuneytum, en þetta er einmitt umræðan sem hefur farið fram um það hvernig við ætluðum að styrkja Alþingi. Af því að hér var vitnað til skýrslu þingmannanefndarinnar og tillagnanna þar þá var það einmitt ein af tillögunum til að styrkja Alþingi, m.a. gagnvart framkvæmdarvaldinu, og til að fá óháða greiningu á efnahagsástandinu, að nauðsynlegt væri að setja á laggirnar slíka stofnun.