140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

stofnun þjóðhagsstofnunar.

46. mál
[17:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svör sem um margt voru ágæt þótt sumir hefðu kannski búist við fyllri svörum eftir það 10 mánaða hlé sem er á milli fyrri fyrirspurnar og síðari fyrirspurnar um þetta. Ég vil líka þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir sín orð.

Ég held að lykilorðið í þeirri setningu sem ég las úr skýrslu þingmannanefndarinnar, og hafði reyndar eftir í ræðu forsætisráðherra 18. janúar sl., séu orðin „sjálfstæð ríkisstofnun“. Það skiptir mestu máli í þessu samhengi, án þess að efast í sjálfu sér um faglega hæfni eða trúverðugleika þeirra deilda og skrifstofa sem starfa á vegum framkvæmdarvaldsins, þannig að vitnað sé óbeint í hæstv. forsætisráðherra, að það sé klárt að vinna og úrskurðir stofnunar af þessu tagi séu hafnir yfir allan vafa. Þingmannanefndin orðar sína hluti í því ljósi að hún telur að skortur á slíkri stofnun hafi átt þátt í þeim atburðum sem hér náðu hámarki haustið 2008 og við erum enn að kljást við.

Ég hvet hæstv. forsætisráðherra til að reyna að hraða þeirri athugun sem fram fer í Stjórnarráðinu um þetta og hvet hana til samstarfs við þá nefnd sem fjallar um tillögu Eyglóar Harðardóttur og fleiri hv. framsóknarmanna um þjóðhagsstofu, sem er tillaga sem mér líst sjálfum prýðilega á þó að ég telji að framkvæmdarvaldið hljóti með einhverjum hætti að koma við sögu.