140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

staða mála á gosslóðum undir Eyjafjöllum, í Mýrdal og í Skaftárhreppi.

209. mál
[17:42]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra varðandi stöðuna á gossvæðunum fyrir austan eftir gosin í fyrra og hittiðfyrra. Þetta er eiginlega þríleikur því ég þurfti að spyrja sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um Bjargráðasjóð og efnahags- og viðskiptaráðherra um Viðlagatryggingu Íslands og þau verkefni sem hafa staðið út af hjá þeim en hæstv. forsætisráðherra fer með eins konar verkstjórnarvald yfir þessum aðilum. Ég held ég fari rétt með að þrír ráðuneytisstjórar þessara þriggja ráðuneyta hafi komið að málum til að leysa úr málum sem féllu hvorki undir Bjargráðasjóð né Viðlagatryggingu og stóðu enn út af einu eða tveimur árum eftir gos. Það er rétt að geta þess að þegar þessar náttúruhamfarir gengu yfir voru allir boðnir og búnir og brugðust skjótt við, ríkisstjórn og ýmsar opinberar stofnanir, bæði hjá ríki og sveitarfélögum og ber að þakka það.

Engu að síður hefur eitt og annað dottið á milli báts og bryggju og sum verkefni hafa ekki hlotið úrlausn. Þess vegna kemur þessi fyrirspurn fram. Ég verð að segja eins og er að í umræðum vegna þeirra fyrirspurna sem ég hef lagt fyrir hina hæstv. ráðherrana varðandi Bjargráðasjóð og Viðlagatryggingu hefur það eiginlega ekki skýrst hvort verkefnin sem stóðu út af séu í einhverjum farvegi og verið að leysa þau. Ég býst því við að hæstv. forsætisráðherra sem fer með verkstjórnarvaldið í þessu eins og ýmsu öðru hvað varðar ríkisstjórnina geti upplýst okkur um það.

Við höfum fengið upplýst, t.d. þegar við fórum um í kjördæmavikunni og hittum þessar sveitarstjórnir, að þó nokkur verkefni eru enn óleyst, til að mynda hvað varðar Eyjafjallagosið. Sum voru í einhverjum farvegi en það var mjög óljóst hvar önnur voru stödd og væri áhugavert að heyra hvort til standi að leysa þau.

Það er kannski rétt að nota tækifærið þegar maður á þess kost að spyrja hæstv. forsætisráðherra, og nefna að þetta svæði frá Markarfljóti og austur í dreifbýli Austur-Skaftafellssýslu, þ.e. á áhrifasvæði þessara síðustu náttúruhamfara sem hafa gengið yfir Ísland, er mjög veikt svæði. Þar hefur orðið kannski ein mesta fólksfækkunin og sveitarstjórnir eiga við vanda að stríða og það er ekki víst að sveitarfélögin standi undir alls kyns tjóni og kostnaði vegna hamfaranna sem augljóslega veltist yfir á þau. (Forseti hringir.) Mig langar því jafnframt að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort ríkisstjórnin sé að vinna að einhverjum verkefnum þar að lútandi til að styrkja og efla byggð á þessu svæði.