140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

staða mála á gosslóðum undir Eyjafjöllum, í Mýrdal og í Skaftárhreppi.

209. mál
[17:46]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að vekja athygli á því að fyrirspurnin lýtur að afleiðingum margra stórra atburða en þar er um að ræða gos á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli vorið 2010, eldgos í Grímsvötnum vorið 2011, Múlakvíslarhlaup úr Kötlu syðst í Mýrdalsjökli nú í sumar og jarðhræringar sem enn gera vart við sig á jöklasvæðunum á Suðurlandi. Fjölmargir aðilar hafa komið að úrlausn mála í kjölfarið á þessum hamförum og segja má að stjórnkerfi og sjálfboðaliðasamtök hafi sýnt styrkleika kerfis okkar í tengslum við þessa atburði og þjóðin öll hafi svo sannarlega sýnt hvað í henni býr.

Stofnanir ríkisins munu áfram fylgjast vel með þróun mála og ríkisstjórnin fylgist á hverjum tíma grannt með og fær reglulega ýmsa aðila á sinn fund til að afla upplýsinga um stöðu mála milliliðalaust.

Samráðshópur ráðuneytisstjóra um viðbrögð við náttúruhamförum hefur fjallað með samræmdum hætti um framkvæmdir, aðgerðir og kostnað sem tengjast neyðaraðgerðum á gossvæðinu í kjölfar þessara atburða. Ríkisstjórnin hefur reglulega fjallað um tillögur hópsins um einstök mál og samþykkt viðbótarfjárveitingar sem nema um það bil 1,2 milljörðum króna frá því að eldgosa- og hamfarahrinan hófst í maí á síðasta ári. Er þá ekki meðtalinn margvíslegur kostnaður stofnana sem fjármagnaður hefur verið af reglubundnum árlegum fjárheimildum þeirra né verulegar fjárhæðir sem falla til hjá Viðlagatryggingu og Bjargráðasjóði og þá eru fyrirséð útgjöld sem falla munu til hjá stofnunum á næsta ári þessu til viðbótar. En það hefur verið mjög gott samstarf á milli þeirra fjölmörgu aðila sem að málum hafa komið í kjölfar hamfaranna og er það mikilvægur þáttur til að takast á við verkefnið í heild sinni. Hér hafa sveitarfélög og fjölmargar stofnanir komið samhent að málum.

Ríkisstjórnin mun áfram fylgjast með framvindu mála og samráðshópur ráðuneytisstjóranna mun fjalla um þá þætti sem þörf er á að skoða nánar og upp kunna að koma á síðari stigum eftir þróun mála og á meðan ástæða er til og samhæfa viðbrögð. Við fáum reglulegar skýrslur um stöðu mála og samkvæmt nýrri skýrslu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra má segja að líf sé að færast í eðlilegt horf undir Eyjafjöllum og í Fljótshverfi. Þó er enn hætta á flóðum og aurframburði í ám og öskufok er afar hvimleitt og heilsuspillandi í þurrviðri. Áfram þarf því að vakta náið ýmsa þætti á komandi mánuðum og missirum svo sem vegna hættu á eðjuflóðum, aurskriðum og framburði gosefna niður á láglendi með vatnsföllum vegna gjóskulaga á hálendi. Halda þarf áfram stuðningi við flóðavarnir og landgræðslu á erfiðustu svæðunum, ljúka viðgerðum á heimaveitum og aðgerða er þörf til að vernda kaldavatnslögn til Vestmannaeyja og Landeyja.

Þetta er í skoðun þessa dagana hjá samráðshópi ráðuneytisstjóra og áfram verður unnið að langtímaverkefnum svo sem landgræðsluverkefnum, verkefnum Bjargráðasjóðs og Viðlagatryggingar, uppbyggingu og viðhaldi á varnargörðum, samgöngu- og loftgæðamálum, heilbrigðismálum og stuðningi við íbúa og uppbyggingu á svæðinu.

Vissulega er það svo að hvorki hefur nú né í kjölfar annarra náttúruhamfara hér á landi reynst unnt að bæta tjón í öllum tilvikum enda þótt varið hafi verið á annan milljarð króna til verkefna vegna þeirra atburða sem hér eru til umfjöllunar. Þannig hefur reynst nauðsynlegt að hafna greiðslum vegna tekju- og rekstrartaps, rannsóknarverkefna og ýmissa lögbundinna verkefna stofnana. Einnig vegna tjóns á vélum, tækjum, pöllum, heitum pottum og útihúsgögnum og vinnu við þrif. Enn er verið að skoða hugsanlega aðkomu að öðrum þáttum svo sem tjóni á vatnsbólum.

Síðast en ekki síst vil ég nefna nefnd, undir forustu Ólafs Arnar Haraldssonar, þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum, um bætur í kjölfar náttúruhamfara sem vinnur að því að fara yfir og gera tillögur í því efni. Ég bind miklar vonir við starf þeirrar nefndar og vonast til að fá tillögur hennar í hendur á næstu vikum en nefndin fjallar um ýmis álitaefni á þessu sviði og þá m.a. hvort fella megi fleiri tjónaþætti undir Viðlagatryggingu en nú er. En í starfi nefndarinnar er ekkert undanskilið, enda býr formaður nefndarinnar yfir dýrmætri reynslu eftir að hafa unnið sem verkefnisstjóri í kjölfar Suðurlandsskjálftans árið 2008.