140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

staða mála á gosslóðum undir Eyjafjöllum, í Mýrdal og í Skaftárhreppi.

209. mál
[17:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ágæt svör og greinilega er verið að vinna með mörg af þeim verkefnum sem út af standa en eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra eru til bæir sem enn eru vatnslausir eftir gosin og misheppnaðar tilraunir til að finna vatn. Á einstökum bæjum er vart búandi vegna gosefna og rykmökks.

Ég vænti að þess sjái stað í fjárlagagerðinni í 2. umr. og í tillögum, væntanlega breytingartillögum, sem þurfa að koma frá ríkisstjórninni til að tryggja aukið fjármagn í landgræðslumál og fyrirhleðslu og varnargarða því þar er verulegur skortur á. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á er þetta brýnt verkefni en líka mjög stórt og verður auðvitað ekki unnið á einu ári heldur þó nokkrum árum. Margt hefur verið gert, sumt hefur kannski verið stokkið í og garðar færðir. Það er merkilegt til þess að hugsa, til að mynda um Markarfljót, þar unnu menn sjálfboðavinnu fyrir um 100 árum og byggðu alla þá garða sem stóðu þar sem núna gekk á við gosið og merkilegt að við í dag, við þær aðstæður sem við búum við og öll þau tæki, tól og verkþekkingu sem við eigum, getum ekki betrumbætt þá til að tryggja að ekki fari illa við næsta gos sem við vitum auðvitað aldrei hvenær kemur.

Það er líka áhugavert sem hæstv. ráðherra nefndi um þessa nefnd sem skilar vonandi skýrslu á næstu vikum, hún er að skoða tjónaþætti en það er einmitt áhugavert viðfangsefni hvort ekki þurfi að velta því fyrir sér að Viðlagatrygging hafi einhvers konar aðra deild sem gæti tekið á þeim verkefnum (Forseti hringir.) sem falla utan við vátryggingarstarfsemi og að aðilar sem verða fyrir tjónum af völdum flóða úr ám og frá sjó (Forseti hringir.) séu ekki verr settir en þeir sem verða fyrir ofanflóðatjóni.