140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

staða mála á gosslóðum undir Eyjafjöllum, í Mýrdal og í Skaftárhreppi.

209. mál
[17:53]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef út af fyrir sig ekki miklu við það að bæta sem ég sagði áðan en ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég vil taka undir með honum að afar mikilvægt starf er unnið á vegum nefndar undir forustu Ólafs Arnar Haraldssonar vegna þess að í ljós hefur komið í þeim hamförum sem við höfum gengið í gegnum að ýmsir tjónaþættir falla ekki undir Viðlagatryggingu eða Bjargráðasjóð og það hefur reynst erfiðleikum bundið að koma til móts við þá sem hafa orðið fyrir skemmdum vegna ýmislegs sem ekki fellur undir verkefni þeirra, svo sem ýmis rekstrarverkefni, palla og útihúsgögn, vélar og tæki og fleira. Þetta hefur gefið okkur þá reynslu að ég tel afar mikilvægt að við skoðum það að víkka út þá tjónaþætti sem ekki hafa fallið undir Viðlagatryggingu eða Bjargráðasjóð eða það sem ríkisvaldið hefur getað komið að og lög heimila.

Ég vona að við sjáum sem fyrst afrakstur af starfi nefndarinnar og ég gæti trúað að niðurstaða hennar kallaði á lagabreytingar þannig að við munum fá tækifæri til að fjalla aftur um þetta mál í þinginu.