140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

Íslandskynning.

123. mál
[18:05]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það hefði verið gaman að vera í Frankfurt, en ef við setjum stefnuna á að kynna áfram íslenska menningu skapast vafalaust tækifæri seinna meir fyrir þá ráðherra sem á eftir mér koma og mig að sinna því hlutverki.

Mín trú er sú að besta leiðin í framhaldinu sé að byggja á grunni laga um Bókmenntasjóð, skýra betur hlutverk sjóðsins og útvíkka það jafnvel til að styrkja kynningarþáttinn og tryggja honum fjárframlög til að geta sinnt því hlutverki, byggja á þeim grunni sem var lagður með lögunum frá 2007. Þar var skapaður vettvangur þannig að Bókmenntasjóður er í nánum tengslum við útgefendur, höfunda og aðra sem taka þátt í geiranum. Ég held að það sé rétta leiðin í þessu.

Ég tek undir með hv. þingmanni, menningarkynningar af þessu tagi eigum við að byggja á faglegum grunni. Það var kosturinn við þetta verkefni að það byggði á ákveðnu innihaldi. Það var góður efniviður sem verið var að vinna með og fagleg sjónarmið voru höfð að leiðarljósi við kynninguna á því. Ég held að við getum öll leyft okkur smáklapp á bakið fyrir að hafa staðið í þessu verkefni sem hefur upp á síðkastið verið eitt af því jákvæða í fréttum frá Íslandi.