140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

ólöglegt niðurhal.

124. mál
[18:15]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég hef fullan skilning á að þetta kalli á ítarlega umræðu og ítarleg svör. Eins og réttilega kom fram, m.a. í svari ráðherra, hefur endurskoðun á höfundalögunum lengi legið fyrir. Þetta er risavaxið verkefni og ég tel að sú nálgun hæstv. ráðherra að koma með þetta í hlutum en halda þó áfram með verkið sé rétt, og ég held að menn verði að sýna því ákveðinn skilning ef það tefst að einhverju marki því að það er líka mjög kostnaðarsamt að fá til þess sérfræðinga. En brýnt er það.

Það skiptir miklu máli að við séum ekki að finna upp hjólið hér á landi því að öll önnur lönd standa frammi fyrir því sama. Við hljótum þá að geta borið okkur saman við norrænu þjóðirnar, hvað þau hafa verið að gera, ekki bara Dani heldur líka Finna, Norðmenn og Svía.

Ég hjó eftir því líka, og ég fagna því sérstaklega, að ráðuneytið leiddi saman fjarskiptafyrirtækin og höfundaréttarhafa, eins og Stef og fleiri, til að vinna í þessum málum. Ég held að það skipti mjög miklu máli. Á móti kemur að einhver verður að gæta að hag neytenda í þessu, að það verði ekki bara einhliða ákvörðun. Þá held ég að það sé fagnaðarefni að menn eru þó að stíga þessi skref saman. Áskorun fyrr á árinu, sem fólst í sameiginlegri bókun þeirra, þar sem meðal annars var skorað á ráðuneytið að komið yrði upp tæki til að hægt væri að loka ákveðnum vefsíðum sem bjóða upp á ólöglegt efni — það væri forvitnilegt að fá að vita afstöðu ráðherra til bókunar sem var send frá þessum aðilum. Það skiptir líka máli upp á framhaldið.

Alla vega er gott að vita að verið er að vinna í þessum málum. Þetta er ekki auðvelt, þetta er flókið því að grunnurinn að nútímasamfélaginu, að því að einstaklingarnir geti nýtt sér réttindi sín, hvort sem það eru borgaraleg réttindi eða önnur, er aðgengi að upplýsingum. En það verður þá gert innan ákveðins ramma.