140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

áhrif rafbókarinnar á skóla og menningu.

125. mál
[18:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég ætla á þeim stutta tíma sem ég hef í ræðupúlti að beina sjónum mínum aðallega að skólakerfinu og því er varðar rafbækur. Menningin gegnir náttúrlega gríðarlega stóru hlutverki en ég hef ekki tíma til að koma inn á það stóra svið.

Ég tel að það þurfi að vera ákveðin stefnumörkun varðandi rafbækurnar innan skólakerfisins. Nýjungar í skólakerfinu á kennsluháttum eru að ákveðnu leyti brotakenndar. Ég horfi á skólakerfið og í þessu tilviki grunnskólann. Við verðum að hafa í huga að þar er einstaklingsmiðað nám og þá held ég einmitt að rafbækurnar og öll tækni veiti okkur enn betri tæki og tól til að móta slíkt nám þannig að við sinnum ekki bara þeim sem eru verr staddir innan skólakerfisins heldur líka þeim sem eru bráðgerir og greindir. Við eigum að geta nýtt þetta betur.

Ég verð að hnýta aðeins í hæstv. ráðherra út af stefnumörkuninni varðandi námsgögnin. Það er alveg ljóst að sú ákvörðun að skera eingöngu niður sjóð til námsgagnagerðar á hinum einkarekna markaði í útgáfu bóka var rangt skref. Það þarf að taka á því hvernig við getum nýtt rafbókina innan skólakerfisins. Eða ætlar ráðherra að fara með allar rafbækurnar, því að ég er sannfærð um að þær eiga eftir að koma í ríkara mæli inn í grunnskólana, í gegnum Námsgagnastofnun eingöngu?

Ég velti líka fyrir mér framhaldsskólunum sem eru svolítið annar heimur þegar kemur að námsgögnum. Þar kaupa nemendur sér bækur og mér skilst að með skiptibókamarkaðnum hafi markaðir með bækur á framhaldsskólastigi nokkurn veginn hrunið. Um leið og þetta verður umhverfisvænt er ekki lengur hvati til að búa til bækur þannig að heildarvelta þeirra sem gefa út framhaldsskólabækur hrynur þegar hvatinn til að gefa út nýtt efni er ekki lengur til staðar. Ég held að þetta sé nokkuð sem hæstv. ráðherra hlýtur að hafa áhyggjur af. Við sjáum fram á að endurnýjun námsefnis á framhaldsskólastigi er ekki lengur með sama hætti og áður, fyrir utan að hún er náttúrlega gríðarlega kostnaðarsöm. Ég tel að marka verði stefnu í þessum málum af hálfu stjórnvalda. Ég held að þetta fari ekki eftir einhverjum flokkslínum, ég held að þetta sé einfaldlega mál sem við getum öll unnið að. Ég tel að við verðum að skoða gaumgæfilega hvað hægt er að gera til þess að rafbækur, (Forseti hringir.) af því að ég er að tala um þær í þessari fyrirspurn, geti stutt við grunnskólann og framhaldsskólann og þá þurfum við mismunandi (Forseti hringir.) leiðir og mismunandi aðgerðir.