140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

áhrif rafbókarinnar á skóla og menningu.

125. mál
[18:28]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka spennandi umræðu um afar spennandi og hraða þróun sem okkur sem eldri erum finnst kannski líka svolítið skelfileg af því að við viljum mjög gjarnan að börnin okkar og næstu kynslóðir muni áfram njóta þess að handfjatla bækur eins og við höfum notið í gegnum tíðina. Maður sér sig kannski ekki fyrir sér með tölvuna uppi í rúmi lesandi fagurbókmenntir. En eins og ég segi er þróunin farin af stað og þess vegna verðum við bara að fylgja með; það er ákveðið réttindamál.

Það sem ég held að skipti miklu máli varðandi skólasamfélagið eru þessar tæknilegu útfærslur. Við vitum að tölvur eru að verða úreltar. Við þurfum í raun og veru að koma upp einhvers konar spjaldtölvumenningu í skólum landsins. Það verðum við að viðurkenna og gera strax áætlun um hvernig við ætlum að gera það. Mér finnst mjög spennandi þessi rafbókavæðing fyrir þá nemendur sem eiga erfitt með lestur (Forseti hringir.) vegna þess sem hæstv. ráðherra talaði um í sambandi við letur og stærð og vonandi munu talgervlar koma (Forseti hringir.) í framhaldinu. Það auðveldar öllum aðgang að lesefni.