140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

áhrif rafbókarinnar á skóla og menningu.

125. mál
[18:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég verð að þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið því að hún náði í rauninni að dekka báða hluta fyrirspurnarinnar. Ég þakka sérstaklega fyrir það um leið og ég ítreka það sem kom fram áðan varðandi virðisaukann af rafbókum og er fagnaðarefni að strax hafi verið brugðist við því.

Við áttum ekki alls fyrir löngu samtal, ég og starfandi menntamálaráðherra, um lestur. Ég held að grunnurinn að þessu öllu sé að við tökum markvissar á lestri og þá skiptir ekki máli hvort við erum með rafbækur eða venjulegar bækur. Það skiptir öllu máli að það sé lesið fyrir börnin, lesturinn hefjist heima. Með þessu er ég ekki að reyna að koma samviskubiti inn hjá foreldrum sem eru oft önnum kafnir og geta ekki lesið á hverju kvöldi en góður lestur byrjar einfaldlega heima fyrir og lesskilningurinn líka. Það er lykillinn að þessu öllu til að börnin okkar geti nýtt sér rafbækurnar svo einhverju nemur.

Varðandi stefnuna þá hvet ég hæstv. ráðherra til að móta mjög skýra stefnu fyrir rafbækurnar. Það verða væntanlega mismunandi viðfangsefni á milli grunnskólastigs og framhaldsskólastigs og hæstv. ráðherra bendir líka réttilega á háskólastigið. Ég held að við þurfum að fylgjast mjög vel með þessu. Ég held að mikill samhljómur sé í skólaumhverfinu, á þingi og annars staðar, meðal rithöfunda og útgefenda um að ná viðunandi lausn í þessu þannig að hægt sé að nýta þessa tækni, þessa aðferð til að efla kennsluna. Það er rétt sem ráðherrann sagði að á endanum snerist þetta allt um gæði lesefnis. Ég er sannfærð um að það verður ekki hægt að bjóða upp á hvað sem er og menn verða að vanda sig við rammann í upphafi.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að móta þessa stefnu. Ég tek svo sannarlega undir með ráðherra að skoða verði sérstaklega opið aðgengi að netinu þegar opinberir fjármunir hafa farið í að styrkja ákveðin verkefni. (Forseti hringir.) Ég er með fornleifaverkefni í huga. Það er svolítið merkilegt að þeim sem hafa fengið styrk í ákveðin fornleifaverkefni ber ekki skylda (Forseti hringir.) til að gefa út nákvæmar skýrslur um þau verkefni.