140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

lögmæti breytinga á verðtollum búvara.

117. mál
[18:55]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður ruglar saman tveimur hlutum, annars vegar lögum og reglum og hins vegar alþjóðasamningum sem við stöndum að og uppfyllum með innleiðingu í íslensk lög. Það er það sem umboðsmaður gerði athugasemdir við, þ.e. heimildir ráðherra til að veita afslátt frá settum tollum. Verið er að fara yfir málið því að að sjálfsögðu vill ráðherra fara að lögum. Þetta eru lög sem sett voru löngu áður en ég varð ráðherra og þeim hefur verið framfylgt af þeim ráðherrum sem verið hafa á undan mér í þeim stól. Nú er verið að fara yfir þau lög.

Breytingar á innflutningi á landbúnaðarvörum, sem hv. þingmaður nefnir, eru svo aftur annað mál. Við verðum að minnast þess að staðan hefur gjörbreyst á síðustu tveimur, þremur árum frá því að hv. þingmaður var í ríkisstjórn og efnahagshrunið gekk yfir. Staða krónunnar gjörbreyttist. Innflutningur hefur þess vegna ekki verið eins fýsilegur og áður var. Auk þess er það stefna þessarar ríkisstjórnar að stuðla að sem mestri matvælaframleiðslu hér á landi og að við eyðum sem minnstum gjaldeyri í að kaupa mat til landsins sem við getum með góðu móti framleitt hér. Hins vegar eru líka lög og reglur sem kveða á um að séu líkur á skorti á tilteknum kjöttegundum á markaði innan lands hefur ávallt verið veitt heimild til að flytja þær vörur inn.