140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

strandveiðar.

264. mál
[18:57]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það gæti út af fyrir sig verið freistandi að fara nokkrum orðum um strandveiðar sem voru lögfestar hér á árinu 2009 og reynsluna af þeim. Ég ætla að geyma mér þá umræðu þar til síðar. En það er auðvitað ýmislegt sem mætti um þessar veiðar segja, bæði jákvætt og neikvætt.

Eins og allir muna þegar þessu máli var hrint úr vör var það undir þeim formerkjum að stuðla að svokallaðri nýliðun í sjávarútvegi. Hugsunin var sú að með því að opna þarna leiðir fyrir menn að fara til veiða án þess að þeir þyrftu að kaupa veiðirétt mætti auðvelda þeim sem stæðu utan við veiðarnar aðgengi að þeim. Reynslan varð hins vegar sú, eins og allir vita, að kostnaðurinn við að afla sér veiðiréttar færðist frá aflanum eða kvótanum yfir í það að verðmæti bátanna jókst. Andlag veiðiréttarins var því ekki lengur kvótinn heldur báturinn. Ef menn áttu bát sem uppfyllti þau almennu skilyrði sem gerð voru fyrir strandveiðum gátu þeir farið til veiða. Sögur fóru af stað, sem ég veit að voru sannar, um að verðmæti bátanna hefði margfaldast og verðmæti á handfærarúllum stóraukist, a.m.k. tímabundið meðan menn voru að framleiða meira upp í þá óvæntu eftirspurn sem skapaðist með þessari nýju löggjöf. Það má því segja að þrátt fyrir að ætlunin hafi verið að lækka þennan þröskuld hafi þröskuldurinn einnig hækkað við það að verðmæti bátanna jókst.

Áhugavert er að velta því fyrir sér hvernig til hefur tekist með þetta mál, hvort það hafi leitt til aukinnar nýliðunar. Nú vitum við að fiskunum í sjónum fjölgar í sjálfu sér ekki við að innleiða ný veiðikerfi heldur taka menn úr tiltekinni gefinni stærð sem er útgefinn kvóti hverju sinni þannig að segja má að kostnaðurinn í heild við veiðarnar hafi aukist, enda hefur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra margoft sagt að það sé ekki hugsunin á bak við þetta fyrirkomulag að stunda almennan atvinnurekstur heldur hefur annað vakað fyrir hæstv. ráðherra. Þess vegna hefði ég viljað spyrja um það sem ég nefndi.

Í öðru lagi hef ég áhuga á því að spyrja hæstv. ráðherra um hvort kannað hafi verið hversu margir þeirra sem stundað hafa strandveiðar frá því að þær hófust hafi áður selt frá sér kvóta. Sú umræða hefur verið mjög hávær að mjög margir þeirra sem stunda þessar veiðar hafi áður átt aflaheimildir, selt þær frá sér og komið núna inn með fullar hendur fjár og auðvitað þekkingu á veiðunum til að stunda þær. Nú ætla ég í sjálfu sér ekki að hafa stór orð um það, það er ekkert óeðlilegt að menn vilji koma aftur (Forseti hringir.) inn í sjávarútveginn. Ég ætla ekkert að vera með neina fordæmingu í þeim efnum. Ég kalla fyrst og fremst eftir upplýsingum um þetta hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.