140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

strandveiðar.

264. mál
[19:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það skiptir miklu máli fyrir okkur að sýna fram á fjölbreytni í sjávarútvegi, en fyrst og síðast að við rekum hér áfram sjálfbæran sjávarútveg sem er rekstrarlega bær. Það hefur tekist í megindráttum fram til þessa. En mér sýnist þessar tölur sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynnti hér einmitt draga fram það sem við sjálfstæðismenn vöruðum við á sínum tíma, að draumórar um þessa miklu nýliðun í tengslum við strandveiðar urðu ekki að veruleika. Það er að koma á daginn sem við töluðum um, að þeir sem seldu sig út úr greininni komu aftur inn með þessum hætti. Þessu atriði vildu ríkisstjórnarflokkarnir ekki svara; þeir vildu ekki viðurkenna það. Það þótti kannski ekki smart að segja að þeir sem seldu sig nokkrum sinnum út úr greininni væru að koma með þessum hætti aftur inn. Ég tel að einmitt þær tölur sem hæstv. ráðherra kynnir hér sýni fram á að sú gagnrýni sem sett var fram á kerfið, með fullri virðingu fyrir kerfinu, vegna strandveiðanna hafi átt rétt á sér.