140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

yfirfærsla málefna fatlaðs fólks til sveitarfélaga.

116. mál
[19:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Núna er næstum ár liðið frá því að ábyrgð á framkvæmd sérstakrar félagsþjónustu við fatlað fólk var blessunarlega flutt frá ríki til sveitarfélaga, t.d. stuðningsfjölskyldurnar sem voru á ábyrgð ríkisins. Þjónusta sem samkvæmt lögum um málefni fatlaðra var eingöngu veitt vegna tiltölulega afmarkaðs hóps fatlaðs fólks var færð yfir til sveitarfélaganna. Ég tel að þetta hafi verið rétt skref á sínum tíma. Ég vona að við nálgumst þetta öll með jákvæðum hætti, það eru ákveðin viðfangsefni, vandamál mundu sumir segja, sem hægt er að leysa ef við öll gerum það.

Ég vil gjarnan forvitnast um hvernig staðan á þessari yfirfærslu er, ég held þetta skipti miklu máli. Ég hef áður spurt að þessu, ég gerði það í vor. Þá svaraði hæstv. ráðherra með upplýsandi hætti, og að við þingmenn skyldum fylgjast gaumgæfilega með því hvernig yfirfærslunni á þessum málaflokki til sveitarfélaganna væri háttað.

Viðfangsefnin eru auðvitað misjöfn og til að mynda eru sum sveitarfélögin betur stödd en önnur. Tryggjum við nægilega þá þjónustu sem þessir einstaklingar eiga rétt á hjá sveitarfélögunum? Þetta er hópur sem bindur miklar vonir við að yfirfærslan leiði til þess að þjónustan verði nær. Þjónustan hefur oft verið svolítið fjarri fólkinu en hún verður nálægari með því að það geti leitað til sveitarfélagsins með allar þær þarfir sem upp kunna að koma í tengslum við réttindi þess. Ég vildi því gjarnan fá að vita frá hæstv. velferðarráðherra hver staðan er á yfirfærslunni.

Ég vil geta þess líka að samtök eins og Landssamtökin Þroskahjálp hafa nálgast þetta með þeim hætti að senda öllum kjörnum fulltrúum bækling með yfirskriftinni „Við eigum samleið“. Það eigum við svo sannarlega, samfélagið allt á samleið í þessu máli og vonandi fleirum um að auka og styrkja rétt fatlaðra.

Ég verð þó að lýsa yfir áhyggjum mínum af einum hópi sem lendir í rauninni á milli skips og bryggju. Þetta er 11 manna hópur á gamla Kópavogshælinu, þetta eru íbúar LSH, þ.e. Landspítala – háskólasjúkrahúss. Staða þeirra er óljós. Eins og staðan er í dag eru þeir íbúar á Landspítalanum. Þeim er veitt heilbrigðisþjónusta á ábyrgð velferðarráðuneytisins en um leið er rétt að draga það fram að þessir 11 einstaklingar njóta ekki almennra borgaralegra réttinda eins og bóta almannatrygginga. Þeir njóta ekki örorkubóta. Ég tel að við getum ekki látið þennan hóp sitja eftir (Forseti hringir.) enn eina ferðina og vonast til þess — ég veit að málið er snúið, ég veit að málið er erfitt en það þarf að leysa það — að hæstv. velferðarráðherra beiti sér í því efni að gætt verði að (Forseti hringir.) réttindum þeirra einstaklinga sem eftir eru á gamla Kópavogshælinu.