140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

HPV-bólusetning.

235. mál
[19:42]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Eygló Harðardóttir beindi til mín þremur spurningum varðandi HPV-bólusetningar og fór ítarlega yfir þær.

Svörin eru þau að undirbúningur og framkvæmd HPV-bólusetningar hefur gengið mjög vel. Öllum foreldrum stúlkna sem eru fæddar 1998 og 1999 var sent bréf um bólusetninguna síðsumars og bent á frekari fræðsluefni um sjúkdóma af völdum HPV og áhrif bólusetningarinnar sem nálgast má á heimasíðu embættis landlæknis. Bólusetningarnar hófust í september og nú hafa um 90% stúlkna sem fæddar eru árið 1998 og 1999 fengið eina bólusetningu en alls þarf þrjár sprautur til að fá fulla vörn. Önnur sprauta er gefin einum mánuði eftir að fyrsta var gefin og þriðja sprautan sex mánuðum síðar.

Heilsugæslan sér um bólusetningarnar og eru þær í flestum tilvikum framkvæmdar af hjúkrunarfræðingum sem starfa við skólaheilsugæslu. Bólusetningin er einstaklingum að kostnaðarlausu. Nokkrar stúlkur hafa kvartað yfir almennri vanlíðan ásamt svima í tengslum við bólusetninguna en þessi einkenni sjást oft við bólusetningu unglinga og hafa ekkert með bóluefnið sjálft að gera að mati landlæknis og sóttvarnalæknis. Ein stúlka fékk svima og vanlíðan sem leiddi til frekari rannsókna á Barnaspítala Hringsins. Álit lækna var að þar hefði verið um að ræða ofnæmisviðbrögð sem ekki voru hættuleg.

Engar þjóðir hafa hafið almenna bólusetningu á drengjum gegn HPV en Bandaríkjamenn eru með það í athugun. Rannsóknir á kostnaðarhagkvæmni hafa sýnt að bólusetning drengja gegn HPV er ekki hagkvæm nema þar sem þátttaka stúlkna í bólusetningunni er lítil. Þar sem þátttaka stúlkna hér á landi í bólusetningunni virðist ætla að verða góð eru ekki forsendur fyrir því að bólusetja drengi líka eins og sakir standa vegna mikils kostnaðar og tiltölulega lítils ávinnings. Þetta kann að breytast á komandi árum ef kostnaður tekur breytingum þannig að bólusetning drengja gegn HPV verði hagkvæm.

Til þess að verndandi áhrif HPV-bólusetningar verði sem mest er nauðsynlegt að bólusetja stúlkur áður en þær hefja kynlíf en jafnframt eins nálægt þeim tíma og mögulegt er til að hámarka verndaráhrif bóluefnisins.

Faglegar og hagkvæmniástæður eru fyrir því að hefja HPV-bólusetninguna við 12 ára aldur, en bólusett er við öðrum sjúkdómum á sama aldri, svo sem gegn rauðum hundum, mislingum og hettusótt. Þessi aldur er því talinn góður til bólusetningar gegn HPV. Rök mæla því ekki með því að bólusetja yngri stúlkur gegn HPV að mati þeirra sem um hafa fjallað.

Ég vona að þetta svari fyrirspurn hv. þingmanns um þessa þörfu bólusetningu. Ef ekki þá getum við rætt það frekar í síðara svari.