140. löggjafarþing — 26. fundur,  28. nóv. 2011.

leiðrétting fasteignalána hjá Íbúðalánasjóði.

282. mál
[20:00]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að ég geti sagt það hér og veit að ég deili þeirri skoðun með hv. þingmanni að 110%-leiðin hefði átt að fara í gegnum þingið með það klárt að miða ætti við fasteignamat og hefði átt að vera með fríeignamark upp á 2 eða 3 milljónir. Spurningin er hvað við gerum þar sem það var ekki gert og lögin voru samþykkt svona. Umsóknarfresturinn var miðaður við þessar gefnu forsendur. Hvernig komumst við annan hring án þess að halda áfram að umbuna þeim sem ekki hafa verið að borga, hafa safnað upp skuldum eða verið með frystingar o.s.frv.? Hvernig hjálpum við þeim sem þurfa helst á því að halda? Það er viðfangsefnið sem við erum að glíma við og er býsna erfitt í útfærslu og kostar. Það er rétt að þótt færðar séu í varúðarsjóð ákveðnar upphæðir að afskriftir hjá Íbúðalánasjóði koma m.a. út af lögaðilum og öðru slíku þá er reiknað með því að menn geti látið þessa 33 milljarða duga, en ef við ætlum að fara í auknar niðurfærslur á þessum lánum þurfa að koma til frekari fjármunir til að mynda eigið fé.

Þetta er viðfangsefni sem við glímum almennt við. Hvar getum við gripið inn í á sanngjarnan og eðlilegan hátt þar sem úrræðið virkar? Það hefur verið gert með tvennum hætti. Í fyrsta lagi var það gert með 110%-leiðinni, það er ágætt að rifja það upp, sem átti á sínum tíma að vera 100% af verðmæti eignar vegna þess að 1. janúar lækkaði fasteignamatið um 10%. Nú hefur verið boðað að það muni hækka aftur um 10%. Í öðru lagi hefur það verið gert með vaxtabótum þar sem u.þ.b. 30% af vöxtum og verðtryggingu voru greidd til baka til þeirra sem fengu slíkt.

Lánsveðin og ábyrgðarmennirnir snerta ekkert Íbúðalánasjóð. Ef svo er ætla ég að biðja menn að hafa samband við Íbúðalánasjóð því að Íbúðalánasjóður hefur ekki veitt lánsveð eða verið með ábyrgðarmenn á neinu. Þeir eru hvergi með slík veð. Hafi því verið beitt að menn hafi ekki fengið niðurfellt vegna ábyrgðarmanna lánsveða aftan við Íbúðalánasjóð eru það mistök hjá Íbúðalánasjóði sem (Forseti hringir.) þarf að leiðrétta. Að öðru leyti þarf að leysa þann vanda í bönkunum en hann er ekki hjá Íbúðalánasjóði. (Gripið fram í.) Það er sá hluti (Forseti hringir.) sem kom frá bönkunum og er lítill hluti.

Kærar þakkir fyrir þessa umræðu. Þetta er allt of lítill tími til að fara yfir þessi mál, en þau þarf að ræðast þverpólitískt og finna lausnir á því hvernig við getum helst lokið þessu þannig að komist verði bærilega út úr (Forseti hringir.) þeim erfiðleikum sem við höfum átt við að etja.