140. löggjafarþing — 27. fundur,  28. nóv. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[20:46]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að spyrja að lokum þeirrar ræðu hvað hún kunni að merkja í atkvæðagreiðslu um málið á þinginu væntanlega á morgun, (Gripið fram í.) hvað þessi ræða kunni að merkja við atkvæðagreiðslu á þinginu á morgun um sjálft málið. Það kemur ekki fram í álitinu sem er um margt málefnalegt og endurspeglar þær umræður og þau rök sem fram hafa verið flutt í nefndinni, en mér er ekki ljóst hvað hv. þingmenn í minni hlutanum ætla að gera. Ætla þeir að sitja hjá eða ætla þeir að flytja breytingartillögur eða ætla þeir að vera á móti málinu?

Í öðru lagi, ég ætla ekki að fara í langar rökræður við hv. þingmann um þetta, a.m.k. ekki að sinni, en mig langar þó að gera athugasemd við það sem kallað er í nefndarálitinu skilyrði Norðmanna fyrir viðurkenningu vegna þess að um það var rætt sérstaklega í nefndinni að það orðalag væri í besta falli óheppilegt, í versta falli villandi. Ég bið hv. þingmann að gera betri grein fyrir því hvað hann og meðundirritari hans eiga við með þeim orðum.