140. löggjafarþing — 27. fundur,  28. nóv. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[20:52]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Herra forseti. Ég er sjálfstæðismaður þegar kemur að málefnum Palestínu. Ég er sjálfstæðismaður þegar kemur að málefnum Ísraels. Ég er jafnaðarmaður og vil jafnan rétt þjóða. Ég er á móti forréttindum. Ég er á móti því að ein þjóð fyrir botni Miðjarðarhafs hafi forréttindi umfram aðra þjóð. Það er óréttlátt. Það er alltaf tími fyrir réttlæti. Það er alltaf tími til að berjast fyrir réttlæti.

Til eru þeir í stjórnmálum sem vilja bíða með réttlæti, doka við, hinkra. Til eru þeir í stjórnmálum sem ekki vilja endilega afnema forréttindi. Þeir um það. Ég er annarrar skoðunar og mun flytja mál mitt í því ljósi.

Við Íslendingar samþykktum sjálfstæði Ísraels fyrir næstum mannsaldri, 1948, og hugðumst þá jafnframt ganga til sömu verka hvað ríki Palestínu varðaði. Við dokuðum við. Það gengur ekki að doka við endalaust, í meira en mannsaldur. Stundum verður að taka af skarið, ekki síst þegar réttur þjóðar, þegar réttur fólks, þegar réttur barna til framtíðar er fótum troðinn svo rækilega að búið er að múra heila þjóð inni í fangelsi. Eiga menn þá áfram að doka við? Eiga menn þá áfram að hugsa sem svo: Forréttindin hafa reynst Ísraelsmönnum það vel að ekki er ástæða til að hrófla við þeim? Ég segi nei. Auðvitað eigum við Íslendingar sem njótum sjálfstæðis, sem njótum mannréttinda, sem njótum þess að vera tiltölulega laus undan einum erfiðasta djöfli samtímans, óttanum, að leggjast á sveif með þjóðum sem níddar eru niður í svaðið. Það gerum við hér og nú með þessari þingsályktunartillögu sem er vel rökstudd, málefnaleg og löngu tímabær.

Ég hef átt því láni að fagna að smíða þessa tillögu og koma að henni með endurbótum og málefnalegri endurskoðun og ég segi það hér, herra forseti, að ég er stoltur af því að standa í pontu Alþingis í dag sem er að kveldi kominn, að viðstaddri hv. þm. Amal Tamimi sem fædd er í Palestínu og skrifar undir meirihlutaálit hv. utanríkismálanefndar. Ég er stoltur af því að Ísland taki af skarið. Það þurfa einhverjir að taka af skarið.

Sem fréttamaður í nálega 30 ár veit ég ekki hvað ég flutti margar fréttir af ofbeldinu sem enn er við lýði fyrir botni Miðjarðarhafs. Líklega hafa þær verið nokkur þúsund, blóðugar, ömurlegar, og auðvitað átti maður erfitt með að setja sig inn í aðstæður þessa fólks. En þegar kemur að því að heil þjóð í krafti herveldis, í krafti stuðnings frá enn stærri herþjóð, Bandaríkjunum, kemst upp með það áratugum saman að níða niður aðra þjóð, brjóta alþjóðalög meðvirk, einbeitt, þá hljóta menn að staldra við. Þá hljóta menn að hugsa sem svo: Af hverju í ósköpunum vilja þjóðir heims viðhalda forréttindum einnar þjóðar á einu landsvæði umfram aðra? Af hverju? Er það reist á hagsmunum? Er það reist á hermangarahagsmunum? Það má vel vera. En mér ofbýður rétt eins og stórum meiri hluta íslenskrar þjóðar sem vill að menn taki af skarið og viðurkenni sjálfstæði Palestínumanna innan landamæranna frá því fyrir 1967 sem eru einu landamærin sem viðurkennd eru af alþjóðasamfélaginu. Er til of mikils mælst að fara að alþjóðalögum eða eigum við enn að doka við? Eigum við að bíða? Eigum við að sjá til hverju fram vindur á meðan múrinn stækkar, á meðan æ fleiri bændum er synjaður aðgangur að ökrum sínum og mörkuðum? Eigum við að bíða? Er það siður okkar Íslendinga að bíða þegar aðrar þjóðir eru í neyð, þegar aðrar þjóðir þurfa á aðstoð okkar að halda? Ég segi nei. Auðvitað eigum við að leggjast á sveif með þessu fólki sem eru bræður okkar og systur.

Mönnum er tíðrætt um að Palestínumenn viðurkenni ekki Ísrael og þar með sé málið í algerum hnút; að einhver samtök Palestínumanna viðurkenni ekki Ísrael og þess vegna hökti það mál áfram áratugum saman. Menn snúa dæminu aldrei við. Viðurkenna Ísraelsmenn sjálfstæði og landsvæði Palestínumanna? Nei, þeir hafa aldrei gert það og munu líklega ekki gera það á næstu árum og áratugum vegna þess að þeir vita að þeir komast upp með hernaðarbrölt sitt, með svívirðingu sína gagnvart börnum, konum og körlum á þessu svæði. Ísraelsríki hefur aldrei verið reiðubúið að skilgreina nein landamæri fyrir sig og það er fátt sem bendir til þess að nokkur leiðtogi Ísraelsríkis hafi ætlað sér að skila einum einasta landskika sem tekinn hefur verið af Palestínumönnum á síðustu árum.

Þá spyrja menn: En er þetta þjóð sem hér um ræðir? Getur hún sem slík krafist sjálfstæðis samkvæmt alþjóðalögum? Já, þetta er þjóð samkvæmt öllum skilgreiningum, hún uppfyllir alla skilmála í þá veru og þótt ekki væri nema þess vegna ættum við að taka af skarið og afnema forréttindin. Þetta er búin að vera löng saga, herra forseti, og má rekja hana aftur á 19. öld og reyndar lengra en það. Við getum svo sem talað í árþúsundum ef því er að skipta. En engu að síður má rekja þann hnút sem málið hefur verið í til þess að þegar menn voru að gera upp skuldir sínar eftir seinni heimsstyrjöld var samúðin vissulega mjög mikil með gyðingum sem fengu fyrir vikið að stofna sitt eigið ríki árið 1948 á landsvæði sem gjarnan hefur verið kallað Palestína en þá var tekið fram að Palestínumenn hefðu sama rétt. Það eina sem við erum að gera hér er að koma þeim rétti Palestínumanna sem er að verða mannsaldursgamall í framkvæmd. Við erum að efna gamalt loforð okkar Íslendinga, við erum að efna gamalt loforð allrar heimsbyggðarinnar sem hafði vissulega samúð á sínum tíma með Ísraelsmönnum, en nú, nánast mannsaldri síðar, er komið að samúð með Palestínumönnum.

Ég ætla að nefna dæmi, herra forseti. Hvernig er ástandið núna? Berum það saman við Ísland. Okkur finnst örugglega langur vegur á milli Reykjavíkur og Eskifjarðar. Það eru 702 kílómetrar. Það er lengdin á múrnum sem umlykur nú hina palestínsku þjóð. Frá Reykjavík, alla leið með Suðurlandi, upp með Suðausturlandi og upp til Eskifjarðar, 702 kílómetra múr sem múrar heila þjóð inni. Á þessu svæði búa bændur og almenningur sem reyna að hafa ofan af fyrir sér, vilja geta lifað mannsæmandi lífi, haft í sig og á og komist á akur sinn þrátt fyrir aðstæður, en múrinn, 702 kílómetrar, sem verður alls 760 kílómetrar, 8 metra hár með gaddavírsgirðingu allt í kring, minnir á fortíð margra Evrópubúa. Múrinn umlykur byggðir fólks á Vesturbakkanum og gerir það til dæmis að verkum að æðimargir bændur þurfa að vakna um miðja nótt, fara út á akur sinn, eyða nóttinni þar, sofa á akrinum svo þeir hafi tíma til að komast í gegnum „checkpoint-ið“ nógu snemma um morguninn til að fara á markaðinn. Þeim er gert vegna nútíma-Berlínarmúrs að eyða nóttinni á ökrum sínum svo þeir komist í tæka tíð í gegnum byssuhliðin hjá Ísraelsmönnum inn á markaðinn. Það er staðan í dag. Fleiri sögur væri hægt að nefna, til dæmis um þrjóskan bónda sem neitaði að færa hús sitt þegar Ísraelsmenn komu og reistu múrinn framhjá landi hans og múrinn umlykur hann nánast alveg, í hring. Bóndinn þráaðist við. Hann sagðist ekki ætla að fara burtu og múrinn tekur mjög skringilega leið framhjá bæ hans fyrir vikið.

Það minnir mjög rækilega á þann tíma þegar við Íslendingar og þjóðir heims nánast froðufelldum yfir atferli hvítra Suður-Afríkubúa gagnvart þeldökka meiri hlutanum sem þar býr. Þá tókum við af skarið: „Aldrei apartheid. Útrýmum apartheid.“ Apartheid er víðar, það er stundað nánast með samþykki fjöldamargra svokallaðra lýðræðis- og mannréttindaþjóða núna fyrir botni Miðjarðarhafs. Hvað var það kallað í Suður-Afríku, herra forseti? Það var kallað því ágæta nafni „bantustan“ þar sem farið var inn á svæði almennings, í þessu tilviki Suður-Afríku, og löndin eyðilögð með skipulögðum hætti með lagningu vega fyrir hinn ríkjandi kynþátt, með lagningu byggða fyrir hinn ríkjandi kynþátt þannig að fólkið sem þar var fyrir ætti þess ekki lengur kost að komast til vinnu sinnar, fara til akra sinna eða að fara á markaði sína. Þessi „lausn“, sem kölluð er „bantustan“, var kerfisbundið notuð til að eyðileggja samfélag fólksins heima fyrir. Það fordæmdum við eitt sinn og nákvæmlega það sama eigum við að fordæma fyrir botni Miðjarðarhafs, „bantustan“, skipulagða eyðileggingu á samfélagi almennings.

Myndin sem við drögum upp af málefnum Palestínumanna og araba innan þess svæðis og utan — við verðum að hafa það í huga að Palestínumenn eru ekki bara innan Palestínu heldur eru þeir álíka margir utan þess sem við köllum Palestínu í dag — myndin sem dregin er upp af þessu fólki er einatt mjög einhæf og röng. Við birtum myndir af fólki sem í sumum fréttatímum er sagt vera meira og minna hryðjuverkamenn en við gleymum því að langstærstur hópur þessa fólks sem fætt er og uppalið á þessu svæði er friðelskandi og vill það eitt að það komist greiðlega og án ótta til skóla, vinnu, til starfa sinna og leiks. Það biður ekki um meira. En auðvitað frábiður það sér, og það mundum við líka gera, að endursamþykkt alþjóðalög séu brotin á því upp á nánast hvern einasta dag, hverja einustu klukkustund. Inn í það ferli erum við að grípa og á því erum við að taka með þessari þingsályktunartillögu, við ætlum ekki að doka lengur við. Við ætlum ekki lengur að hinkra. Okkur finnst nóg komið. Við ætlum að standa með fólki, við ætlum að vera sjálfstæðismenn og þótt fyrr hefði verið.

Herra forseti. Utanríkismálanefnd hefur fjallað í þaula um málið. Stór meiri hluti hennar er fylgjandi því og er það vel. Það er ánægjulegt að sjá góðan meiri hluta myndast um þetta þjóðþrifamál Palestínumönnum og vonandi Ísraelsmönnum líka til heilla. Lykillinn að friðsamlegri framtíð fyrir botni Miðjarðarhafs hlýtur að felast í því að menn hafi jafna möguleika, sitji við sama borðið og að aðrir séu ekki skör ofar en hinir. Það er ekki jafnstaða. Það leiðir til hagsmunaárekstrar og grunsemda, það leiðir til óöryggis og fyrir vikið sjáum við hvernig komið er fyrir þjóðum fyrir botni Miðjarðarhafs. Þær þjóðir skulu standa jafnfætis. Það er eina eðlilega leiðin til sóknar í mannréttindamálum á því svæði.

Eins og ég gat um, herra forseti, fjallaði nefndin um málið á allmörgum fundum og fékk til sín gesti sem reifuðu málið og voru vissulega ekki sammála um það eðli málsins samkvæmt. Menn skiptast á skoðunum í lýðræðissamfélagi, en sá sem hér stendur telur nefndarálit meiri hlutans vera rökstutt með miklum ágætum. Það er í góðu jafnvægi. Það höfðar bæði til Ísraelsmanna og Palestínumanna. Lögð er áhersla á að bæði Ísraelsmenn og Palestínumenn láti af ofbeldisverkum á hendur venjulegu fólki, hvorir á hendur öðrum og lögð er áhersla á að með þingsályktunartillögunni sé stigið skref til heilla fyrir palestínska þjóð, fyrir ísraelska þjóð og fyrir ástandið almennt fyrir botni Miðjarðarhafs. Það þarf að taka af skarið. Við ætlum ekki að doka við í annað sinn í annan mannsaldur. Nú er tímabært að taka af skarið. Það er alltaf tími fyrir réttlæti. Það er alltaf tími til að berjast gegn óréttlæti. Það er alltaf hægt að vera sjálfstæðismaður.