140. löggjafarþing — 27. fundur,  28. nóv. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[21:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það mál sem við ræðum hér og munum væntanlega samþykkja á morgun í atkvæðagreiðslu er í sjálfu sér mjög merkilegt. Það hefur verið lengi í umræðu á Íslandi og verið unnið að því lengi. Líkt og kom fram hjá síðasta ræðumanni, hv. þm. Amal Tamimi í hennar ágætu ræðu, er mjög erfitt að setja sig í spor þeirra sem þarna búa eða hafa búið. Það er erfitt að gera sér í hugarlund, hafandi ekki komið á staðinn, hvernig er að búa við þær aðstæður sem þarna eru.

Það hefur verið fróðlegt að taka þátt í umræðunum í utanríkismálanefnd og lesa þau gögn sem hafa borist og hlustað á þá sem hafa komið fyrir nefndina; fróðlegt að því leytinu til að maður hefur fengið að mörgu leyti dýpri sýn á ástandið en maður hafði áður. Ég ásamt tveimur öðrum þingmönnum naut þess einnig í október að vera á þingi Sameinuðu þjóðanna þar sem rætt var um Palestínu, og ræddi við íslenska sendifulltrúa sem hafa staðið vaktina þar og staðið sig afar vel.

Þetta mál er að sjálfsögðu afar flókið og því miður er ekki á færi okkar Íslendinga að leysa það í einni svipan. Við getum hins vegar reynt að standa vaktina og eigum að gera það áfram og styðja það að þarna komist á friður, mannréttindi séu virt og fólkið á þessu, ég ætla bara að leyfa mér að segja það, stríðshrjáða svæði, hvort sem það eru Palestínumenn, Ísraelar eða aðrir, þetta ágæta fólk nái að búa í friði til langrar framtíðar.

Sagan sem við erum í raun að setja mark okkar á í dag og á morgun er býsna löng. Við erum ekki að klára þessa sögu á nokkurn hátt þó að við samþykkjum þessa tillögu vonandi á morgun. Við erum hins vegar að setja mark okkar á ferlið allt. Eftir sem áður verður það skylda okkar Íslendinga að standa mjög fast á því að friðarviðræður og málin verði leyst með þeim hætti að sem flestir geti vel við unað.

Eins og ég sagði er saga þessa máls löng. Árið 1990 hitti Steingrímur Hermannsson, þáverandi forsætisráðherra, Arafat í Túnis og þótti sumum mjög óheppilegt fyrir Ísland að forsætisráðherra skyldi taka upp á því. En það sýnir í raun að Íslendingar hafa verið í gegnum tíðina tilbúnir til að fara óhefðbundnar leiðir þegar að svona stórum málum kemur. Frá þeim tíma vil ég meina, og tek undir orð hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar áðan, hefur málið þróast hér heima og sú tillaga sem við fjöllum um hér og verður örugglega samþykkt á morgun er eðlilegt framhald af öllu því sem hefur gerst á síðustu árum og áratugum.

Staða palestínsku þjóðarinnar er vitanlega flókin og margþætt vandamál krefjast og bíða úrlausnar. Þau vandamál eru mörg þess eðlis að þau verða eingöngu leyst heima fyrir, ég leyfi mér að segja heima fyrir þótt að hv. þingmaður Amal Tamimi sem talaði á undan mér áðan, hafi bent réttilega á að erfitt er að skilgreina hvað „heima“ er þegar ekkert ríkisfang eða slíkt er fyrir hendi. En heima fyrir verður að leysa ákveðna hluti sem við verðum að treysta þeim er þar starfa til að gera. Það flækir hins vegar vitanlega málið að kannski er ekki fullur einhugur um alla hluti meðal þeirra sem búa í Palestínu eða meðal Palestínuaraba en það er sama, það á ekki að gefa neinn afslátt.

Ég vil segja samt sem áður að líkt og Bandaríkjamenn verða að reyna að koma vitinu fyrir ísraelsk stjórnvöld, svo ég orði það bara þannig, þarf Arababandalagið að sjálfsögðu að láta til sín taka og leggja sitt á vogarskálarnar til að leysa þessi mál.

Í tillögunni sem við fjöllum um er það áréttað að við erum að tala um tvö ríki, ríki Ísraela og ríki Palestínumanna. Eingöngu þannig getur lausnin fyrir botni Miðjarðarhafs orðið í framtíðinni. Það er mjög mikilvægt að við gleymum því ekki að rétt kjörnir og viðurkenndir aðilar verða að fara með stjórnvölinn og leiða þessar þjóðir til betra lífs. Ég vil koma því á framfæri.

Á þessu máli eru margar hliðar. Við Íslendingar erum að taka ákveðna afstöðu og ég er mjög ánægður með það. Ég held að Alþingi Íslendinga geti verið mjög stolt af því að halda áfram því ferli sem hafið var fyrir löngu síðan en ég vona að enginn haldi að við séum að klára málið eða leysa það á nokkurn hátt, við erum eingöngu að leggja lítið lóð á vogarskálarnar.