140. löggjafarþing — 27. fundur,  28. nóv. 2011.

viðurkenning á sjálfstæði og fullveldi Palestínu.

31. mál
[22:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Herra forseti. Það er komið að lokum síðari umræðu um þingsályktunartillögu sem hér hefur verið á dagskrá um viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi Palestínu. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðu um málið. Ég tel að umræðurnar hafi verið afar málefnalegar og yfirvegaðar, hér hafi ýmis sjónarmið verið reifuð, m.a. þau sem komu fram í utanríkismálanefnd.

Vitaskuld er best að fram komi að ekki standa allir fulltrúar í utanríkismálanefnd og ekki fulltrúar allra flokka að breytingartillögu og nefndaráliti meiri hlutans, en ég tek undir með þeim sem hér hafa sett fram þá frómu ósk að um málið geti orðið víðtæk samstaða á morgun og enginn muni að minnsta kosti leggja stein í götu þess eða leggjast gegn samþykkt þess. Það mun koma í ljós í atkvæðagreiðslunni eins og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir upplýsti um fyrr í kvöld.

Í þessari umræðu hefur líka verið á það bent að Ísland hefur oft verið leiðandi í frelsis- og mannréttindabaráttu víða um heim. Við erum sjálf ung, sjálfstæð þjóð. Í nefndarálitinu minnumst við á Eystrasaltsríkin og sjálfstæðisbaráttu þeirra 1991 þegar Ísland varð fyrst ríkja til að viðurkenna endurheimt sjálfstæði þeirra. Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi og þó að Ísland sé smátt og við séum fá höfum við líka rödd á alþjóðavettvangi sem getur skipt heilmiklu máli. Við vorum líka fyrsta ríkið sem viðurkenndi Króatíu sem sjálfstætt ríki, Svartfjallaland, þó að sjaldnar sé minnt á það í þessari umræðu. Við Íslendingar eigum góða sögu í þessu efni og getum verið stoltir af henni og ég lít svo á, eins og hæstv. fjármálaráðherra, að í þessu máli snúist þetta um hvað við viljum. Viljum við styðja frelsis- og sjálfstæðisbaráttu palestínsku þjóðarinnar? Ef við viljum það þá látum við það í ljós á Alþingi með samþykkt þessarar þingsályktunartillögu.

Ég vil líka segja að það var ánægjulegt að fá að hafa hv. þm. Amal Tamimi í utanríkismálanefnd í meðferð þessa máls, Íslendinginn Amal Tamimi sem er fædd og uppalin í Jerúsalem eins og hún rakti í máli sínu. Ég vil líka segja að ræða hennar snart mig djúpt. Ég er sannfærður um að það á við um okkur öll sem hlýddum á hana segja frá þeirri lífsreynslu sinni að alast upp við þær hrikalegu aðstæður sem palestínska þjóðin bjó við þá og býr við enn. Við erum líka ánægð með að hafa hana hér með okkur því að sannarlega auðgar það mannlíf okkar og menningu að hingað flytjist fólk með ólíkan bakgrunn, ólíka sýn, ólíka reynslu. Það auðgar okkar líf sannarlega.

Ég vil, virðulegur forseti, enn og aftur þakka hv. þingmönnum sem hafa lagt málinu lið með vinnu í utanríkismálanefnd og í umræðum í kvöld og vonast til að þetta megi verða giftusamt skref sem Ísland tekur með því að lýsa yfir því að við viðurkennum sjálfstæði og fullveldi Palestínu. Sannarlega er von okkar líka að það hjálpi palestínsku þjóðinni og sé skref í þá átt að palestínska þjóðin verði jafnsettari Ísrael í þeirri baráttu og vinnu sem augljóslega er enn fram undan við að koma á varanlegum friði í þessum heimshluta. Ég á mér að minnsta kosti þá von að okkar skref geti verið liður í þeirri frelsisbaráttu. Ég óska palestínsku þjóðinni velfarnaðar og alls hins besta á vegferðinni fram undan.