140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Í fréttum í gærmorgun var fjallað um að Matís hygðist ekki taka við styrkjum frá Evrópusambandinu til aðlögunar að íslensku regluverki og var það tengt að einhverju leyti við þá staðreynd að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefði ekki í hyggju að taka við fjármagni til aðlögunar að ESB.

Á forsíðu Morgunblaðsins í morgun var síðan fjallað um að unnið væri að samningi milli ríkisstjórnar Íslands og Evrópusambandsins um aðlögunarstyrki frá IPA. Í frétt kom fram að fjármunirnir yrðu algerlega fyrir utan íslenskt skattkerfi, enginn virðisaukaskattur og engir tollar yrðu á nokkru sem Evrópusambandið flytti inn til þessara aðlögunarverkefna.

Frú forseti. Mér er ekki kunnugt um þennan samning. Hann hefur í það minnsta ekki verið birtur opinberlega. Ég hafði samband við utanríkisráðuneytið í morgun og þar var mér tjáð að ekki væri mögulegt að fá þennan samning, hann væri enn til umfjöllunar innan ríkisstjórnarflokkanna. Það er ekki óeðlilegt að fólk spyrji sig að því hvað þessi samningur feli í sér, hverjir hafi undirritað hann og hvenær. Er það rétt að samningurinn feli það í sér að Evrópusambandið fari fram á að vera í eins konar frískattaumhverfi á Íslandi, að þeir þurfi ekki að greiða tekjuskatt, aðflutningsgjöld, stimpilgjöld eða önnur opinber gjöld? Ef svo er er mjög mikilvægt að það komi fram við umræðuna, sér í lagi í ljósi þess að við Íslendingar erum að skera niður hvarvetna, í heilbrigðiskerfi, í velferðarmálum og hækka skatta á almenning og fyrirtæki í landinu. (Forseti hringir.) Það er mjög mikilvægt, frú forseti, að samningurinn verði birtur opinberlega og það sem fyrst.