140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Fjölleikahús ríkisstjórnarinnar heldur áfram að ferðast um landið. Nú er það Grímsævintýrið sem er allt komið í uppnám. Maður spyr: Hvað verður það næst?

Hæstv. sjávarútvegsráðherra er harðlega gagnrýndur fyrir að hafa komið fram með vinnuskjöl sem eru augljóslega viðbrögð við því að hafa þurft að bregðast við neikvæðum umsögnum um síðasta mál sem komu frá ríkisstjórninni. Hæstv. ráðherra er settur út í horn vegna þess að hann leyfir sér að leita eftir samráði út fyrir hið hefðbundna baktjaldamakk stjórnarflokkanna.

Þá kemur að því sem skiptir kannski mestu máli í allri deilunni um ráðherra í ríkisstjórninni og stjórnarfarið almennt, það er væntanlega sú Evrópusambandsvegferð sem ríkisstjórnin er á. Að mínu mati er annar stjórnarflokkurinn, Samfylkingin, að mála sig algerlega út í horn og er vart stjórntæk fyrir nokkurn einasta stjórnmálaflokk þegar þannig haldið er á málum að ekki má ræða skynsamlegar lausnir á sjávarútvegsmálum eða leggja til hliðar Evrópubröltið sem flokkurinn stendur fyrir. Nú er komið í ljós og var staðfest í þessum ræðustól rétt áðan að enn er verið að leyna þingið samningum. Staðfest er að til er samningur í utanríkisráðuneytinu sem búið er að senda til þingflokka stjórnarflokkanna sem fjallar, samkvæmt þeim upplýsingum sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason bar upp áðan, ef ég heyrði rétt, um IPA-styrki. Sá samningur hefur ekki verið kynntur í utanríkismálanefnd og ég ræddi það aðeins í morgun og óskaði eftir því þá að samningurinn kæmi strax til nefndarinnar þannig að hægt væri að fara yfir hann. Í það minnsta gengur ekki að vera með samninga sem snerta þetta mál án þess að utanríkismálanefnd viti af því hvort þeir samningar eru komnir í þingflokkana eða ekki. Það hlýtur að vera krafa okkar að fá samninginn strax.

Við hljótum að velta því fyrir okkur, hv. þingmenn, hvort mikið sé um svona samninga, hvort mikið sé til af svona pappírum (Forseti hringir.) sem liggja einhvers staðar og við höfum ekki aðgang að.