140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar aðeins að taka hér til máls um erlenda fjárfestingu. Eins og hún hefur verið meðhöndluð í þingsölum og víðar er þetta orðinn frekar þreyttur frasi og virðist koma úr munni manna, að þeir hafi einfaldlega ekki hugmynd um hvað þeir eru að tala um. Erlend fjárfesting er margs konar, hún er flokkuð sem bein erlend fjárfesting og sem óbein erlend fjárfesting í haggögnum. Bein fjárfesting er til dæmis álver, sem við höfum þrjú af og eru sennilega sú eina erlenda fjárfesting sem við höfum að nokkru marki séð á Íslandi, en svo höfum við líka óbeina erlenda fjárfestingu sem mörgum finnst æskileg og getur verið það. Þar eru meðal annars jöklabréfin, alls konar hlutabréfa- og skuldabréfabrask í alþjóðlegu fjármálaumhverfi sem getur haft mjög mikilvægu hlutverki að gegna til að auka skilvirkni en veldur líka óstöðugleika, eins og við vitum af biturri reynslu og eins og Evrópa veit nú af biturri reynslu.

Víðast um heim eru ýmiss konar takmarkanir af einhverju tagi á beinni erlendri fjárfestingu og einnig á óbeinni erlendri fjárfestingu. Algjörlega óheft erlend fjárfesting sem Samfylkingin talar hér mest fyrir er í raun ekkert annað en birtingarmynd öfgakenndrar nýfrjálshyggju þar sem alræðisvald peninganna er algert. Það er ótrúlegt að þingmenn sem kalla sig jafnaðarmenn skuli styðja slíkt og það ber vitni um að annaðhvort viti þeir ekki hvað erlend fjárfesting er eða þeir vita ekki hvað það er að vera jafnaðarmaður í merkingunni sósíaldemókrat — nema hvort tveggja sé og ég held að það sé einfaldlega þannig.

Frú forseti. Það er grundvallarmunur á því að erlend fyrirtæki og einstaklingar kaupi hér íbúð eða sumarbústað eða kaupi hér auðlindir og stórar landareignir. Því miður virðist fjöldi þingmanna ekki skilja muninn þar á og mættu þeir því gjarnan hugsa sig um tvisvar áður en þeir tjá sig aftur um viðlíka viðfangsefni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)