140. löggjafarþing — 28. fundur,  29. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Í nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar kom fram að ekki yrði gengið lengra í hagræðingu í heilbrigðisþjónustu án þess að skerða þjónustu og fækka störfum. Engar tillögur um hvernig ætti að mæta niðurskurðinum hjá heilbrigðisstofnunum lágu fyrir þegar það álit var afgreitt nema frá Landspítalanum. Í álitinu kom fram sú krafa að áður en að lokaafgreiðslu fjárlaga kæmi yrði að liggja fyrir hvaða áhrif niðurskurðurinn hefði á einstaka stofnanir, staði og landsvæði. Jafnframt að nauðsynlegt væri að stefna og áætlun til langs tíma lægi fyrir um heilbrigðisþjónustuna og þann fjárlagaramma sem hún ætti að starfa innan. Þetta eru hörð orð frá stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar, að engar tillögur hafi legið fyrir, engin greining á áhrifum niðurskurðarins, engin stefna og enginn langtímafjárlagarammi. Í greinargerð aðstoðarmanns velferðarráðherra sem barst þingmönnum á föstudaginn var eru lagðar til nokkrar breytingar á uppsafnaðri aðhaldskröfu heilbrigðisstofnana. Virðast breytingartillögur fjárlaganefndar byggjast á þessari greinargerð. Þannig er ljóst að Landspítalinn þarf enn að loka St. Jósefsspítala og líknardeild aldraðra á Landakoti og flytja réttargeðdeildina frá Sogni á Klepp.

Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja þarf víst að sameinast Heilbrigðisstofnun Suðurlands og breyta vöktun og mönnun lækna eða loka skurðstofunni. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða þarf að loka hjúkrunarrými á Þingeyri, heilsugæslustöðvum á Suðureyri og Súðavík og svo mætti áfram telja. Með gífurlegu átaki hefur starfsmönnum í heilbrigðisþjónustu tekist að draga saman í rekstri, oft með miklum persónulegum fórnum. Nú segja menn að lengra verði ekki komist. Því spyr ég formann velferðarnefndar hvernig henni lítist á þessar tillögur velferðarráðuneytisins og fjárlaganefndar um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Er einhverja stefnu að finna í þessu? Er þetta ekki bara meira af því sama? Er einhver langtímarammi til staðar og mega menn eiga von á áframhaldandi niðurskurði, áframhaldandi tilfærslu kostnaðar á sjúklinga og þjónustu á einkastofur?